Vináttuvarð Álftahreiðurs

Þegar krakkarnir á Álftahreiðri voru að læra um málhljóðið /v/ með Lubba sýndu þau mikinn áhuga á vörðum og tilgangi þeirra á heiðum og fjöllum landsins. Út frá þeim áhuga bjuggu þau til sína eigin steina til þess að byggja okkar eigin vörðu inni á deild. Steinarnir voru búnir til úr margvíslegum endurnýttum efnivið, svo sem frauðplast, pappi, svampi og korki. Síðan notuðu þau gips til að binda allt saman og forma steininn sinn. Að vinna með gips er mjög spennandi og áhugavert ferli fyrir börnin sem reynir á flest skynfæri og upplifunin verður þar af leiðandi einstök.
Í vetur hefur áherslan verið á vináttu og ákváðum við á flétta vináttu saman við vörðuna til þess að dýpka fræðsluna um málhljóðið /v/ enn frekar. Eftir langa vinnu með vináttu, til að mynda í samstarfi við Blæ, var kominn tími til þess að búa til vináttusáttmála sem börnin myndu semja og síðan þá samþykkja ef allir voru sammála því sem kæmi þar fram.
Börnin komu saman í hópum og sömdu vinareglur fyrir sáttmálann. Vinareglurnar voru síðan lesnar upp á fundi með tilheyrandi umræðu og vangaveltum. Daginn eftir fórum við aftur yfir reglurnar eftir athugasemdir og skoðanir sem komu fram daginn áður og voru þá allir tilbúnir til þess að samþykkja vináttusáttmálann.
Sem formleg samþykkt á sáttmálanum skrifuðu börnin stafina sína á steininn sinn og síðan voru steinarnir hengdir upp í formi vörðu. Þetta er vörðulegasta varða sem til er! 
Frábært verkefni hjá þeim á Álftahreiðri :)


Fréttamynd - Vináttuvarð Álftahreiðurs Fréttamynd - Vináttuvarð Álftahreiðurs

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn