Öskudagur nálgast


Gleðilegt ár, nú er allt að komast í rútínu aftur eftir gott jólafrí. Þar sem öskudagurinn er snemma í ár 17. febrúar viljum við biðja ykkur um að koma með bol sem fyrst fyrir öskudagsbúning barnanna. Við óskum eftir að börnin komi með ljósan bol, hann þarf ekki að vera nýr og gott að hann sé vel rúmur þannig að börnin geti búið til úr bolnum það sem þau óska eftir að vera á öskudaginn.

Aðeins um öskudagsbúningagerðina hjá okkur í Rjúpnahæð:
Hugmyndin að öskudagsbúningagerð er byggð á hugmyndafræði sem kallast hugsmíðahyggja. Þar er námsumhverfið opið og auðugt og börnin fá tækifæri til að vera sjálfstæð í að skapa sitt eigið. Hlutverk kennaranna er síðan að skapa það umhverfi og andrúmsloft sem leiðir til náms með tilliti til aldurs hverrar deildar. Við höfum gert þetta með því að gera börnunum kleift að útbúa sína eigin búninga fyrir öskudagsgleðina í leikskólanum. Við biðjum foreldra að koma með bol í leikskólann sem börnin síðan útfæra eftir sínu höfði. Við leggjum síðan fram allan þann efnivið sem hægt er að bæta við til að ná þeim árangri sem börnin vilja. Fyrst byrjum við á umræðu um öskudaginn í samverustund með opinni spurningu um hvað við viljum vera á öskudaginn. Þegar sú umræða er búin teikna börnin búningana sína á blað eins og sannir hönnuðir gera. Að því loknu er hafist handa við að breyta bolnum í búning allt eftir því hvað ákveðið var í upphafi. Mála, klippa, sauma, búa til fylgihluti og jafnvel hvernig þau vilja vera máluð. Undirbúningsferlið tekur allt að sex vikur.
Við öskudagsbúningagerðina vinnum við að 2. og 12.grein barnasáttmálans, barnið fær að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif sem og jafnræði og engin mismunum þar sem allir gera sína búninga, engin í keyptum búningum. Að heimsmarkmiðunum stuðlum við endurnýtingu á fatnaði með því að óska eftir notuðum bolum að heiman, jafnræði og stuðla að sjálfbærni með því að endurnýta efnivið.

Skemmtilegur tími framundan í Rjúpnahæð :)