Hér gefur að líta á alla þá þætti sem við kemur námssviði leikskóla í starfinu á Rjúpnahæð. Smellið á undirflokkana hér til vinstri til að skoða betur.

 

Málrækt
Tungumálið er mikilvægasta tæki manna til boðskipta. Með því tjá þeir hugsanir sínar og tilfinningar, skoðanir og fyrirætlanir. Í frumbernsku og á leikskólaaldri er lagður grundvöllur að málþroska barna. Segja má að málörvun gangi eins og rauður þráður í gegnum allt leikskólastarfið. Mikilvægt er að mál og málörvun greinist ekki frá öðrum uppeldisþáttum. Móðurmál okkar og bókmenntaarfur tengir saman fortíð þjóðarinnar og nútíð. Því ber að leggja áherslu á málrækt; í samtölum, með krefjandi spurningum, með því að lesa fyrir barnið, segja því sögur og kenna því kvæði og þulur. Mikilvægt er að hinn fullorðni setji orð á allar athafnir daglegs lífs innan leikskólans því það eykur orðaforða barnanna, tali við þau en ekki yfir þeim. Að samskiptin byggist á gagnkvæmri virðingu, börnin séu hvött til að segja frá, halda uppi samræðum, skiptast á skoðunum, hlusta, syngja, lesa myndtákn, fylgja og skilja fyrirmæli. Ritað mál er haft sýnilegt og áhersla lögð á gott og fjölbreytt málfar.

 

Tjáning
Tjáning er mikilvægur hluti af þroska barns. Við upphaf leikskólagöngu þess í Rjúpnahæð er markviss þjálfun í að koma fram. Tjáningin eflir sjálfstæði og sjálfsímynd barnsins. Það að koma fram og tjá sig er mjög þroskandi og lærir barnið að standa á sínum skoðunum og upplifir virðingu frá hlustendum sínum.

,,Gulleggið” er litríkt egg sem gengur á milli barnahópsins og það barn sem hefur eggið í hendi sér hefur orðið þá stundina. Barnið skynjar umburðalyndi og virðingu í sinn garð frá hópnum við það að hafa tækifæri og þor til að tjá sig. Sjálfsákvörðunarréttur barnsins er virtur með því að barnið hefur kost á því að láta eggið ganga áfram og/eða sitja hjá. Mikilvægt er að barnið læri að sýna öðrum virðingu og jákvætt viðhorf með því að hlusta og gefa öðrum næði til að tjá sig.

,,Pallurinn” er tjáningartæki sem er notaður er til að koma fram. Hann er ekki ákveðin pallur, en hægt er að notast við teppi, stól eða eitthvað sem ímyndunaraflið bíður uppá. Öll börn deildarinnar flytja erindi á pallinum hvort sem er í fámennum eða stórum hópum. Þetta tjáningartæki getur átt við bæði eldri og yngri deildir leikskólans og getur notast í hvaða aðstæðum sem er t.d. inn á deild eða frammi á gangi. Erindin eru flutt á forsendum barnanna og unnin út frá þroska og áhuga þeirra. Pallurinn styrkir hópkennd og samvinnu barnanna þar sem lýðræðislegar umræður myndast um hvaða verkefni skal taka fyrir hverju sinni.

,,Púltið” er svo næsta stig þar sem barnið er eitt fyrir framan aðra með ákveðið erindi sem það flytur.,,Púltið” er hugsað sem hjálpartæki fyrir barnið og þarf ekki að vera púlt í raun, teppabútur gæti nýst eins vel. Aðalatriðið er að barnið finni öryggi og þjálfist í því að koma fram og standa á skoðunum sínum. Með því öðlast barnið sjálfstraust og styrkir sjálfmynd sína og það öðlast trú á sjálfan sig.

Samræðuhópur elstu barna þar sem börnin tjá sig í litlum hópum og skiptast á skoðunum, tekin fyrir ákveðin málefni sem liggi þeim á hjarta undir stjórn kennara. Þarna fara fram skoðanaskipti og lýðræðislegar ákvarðanatökur.

 

Bókmenntir
Bækur þurfa að vera hluti af daglegu umhverfi barnsins svo það læri að njóta þeirra. Bókasafn leikskólans verður strax frá upphafi hluti af umhverfi þess. Það lærir að bókin á sinn stað og hægt er að fá lánaða bók og að henni sé skilað aftur á sinn stað. Börnin fara í litlum hópum á bókasafnið og læra að umgangast það.

 

Tákn með tali
Barn fær tákn þegar það kemur í leikskólann sem mun fylgja því út leikskóladvölina. Þessu til viðbótar eiga allir starfsmenn tákn sem auðvelda mun barninu að greina á milli starfsfólks og þekkja nöfnin þeirra. Með tímanum lærir barnið að nota tákn við dagleg störf í leikskólanum, s.s. í matartíma, hópstarfi, samverustundum og tónlist.

Markmiðið með notkun og innlögn tákna með börnum leikskólans er að ýta undir aukin málþroska og málskilning barnanna. Þetta leiðir til þess að börn og starfsfólk eru betur í stakk búin til að mæta þörfum þeirra einstaklinga sem eiga við málhamlanir að stríða. Eftir því sem barnið eldist getur það átt meira frumkvæði að því hvaða tákn skulu tekin fyrir.

18 mánaða – 2 ára
Málrækt fer fram í daglegum samskiptum. Barnið lærir táknið sitt og starfsmanna á deildinni. Því er kennt að umgangast bækur og lesnar eru einfaldar myndabækur. Loðtöflusögur og stuttar sögur með myndum sagðar. Barnið fær tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar á þeim sögum sem lesnar eru hverju sinni og hafa áhrif á val þeirra.

2 – 3 ára
Málrækt fer fram í daglegum samskiptum. Barnið lærir tákn annarra barna á deildinni og helstu matartegunda. Það lærir tákn með helstu söngvum sem sungin eru í leikskólanum. Bókasafnið er kynnt fyrir barninu og þær umgengnisreglur sem gilda. Barnið lærir að hlusta á sögur með stuttum söguþræði sem er síendurtekinn. Það fær tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar á þeim sögum sem lesnar eru hverju sinni og hafa áhrif á val þeirra. Það lærir söngva, og þulur eru lesnar í les- og myndrænuformi.

3-6 ára
Málrækt fer fram í daglegum samskiptum. Barnið lærir tákn í nánasta umhverfi leikskólans og almenn tákn. Barnið lærir meðferð bóka, orsök og afleiðingu. Barnið semur sögur frá eigin brjósti, hlustar á framhaldssögu, lærir þulur, söngva og rím. Það fær tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar á þeim sögum sem lesnar eru hverju sinni og hafa áhrif á val þeirra.

 

Hreyfing
Börn hafa mikla þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Hreyfing stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan, gleði, snerpu og þoli. Í Rjúpnahæð er hreyfiþörf virt og örvuð og börn læra að þekkja og skynja líkama sinn. Börn sem búa yfir góðri hreyfifærni og líkamsstyrk eiga auðveldara með að njóta sín í daglegu starfi, úti sem inni. Leikir, sem reyna á líkamann, veita barni útrás. Barn öðlast skilning á styrk sínum, getu og sjálfstraust þess eykst. Það skynjar líkama sinn og nær smám saman betri stjórn á hreyfingum sínum. Hreyfing er uppspretta gleði og ánægju.

Markmið með hreyfingu í Rjúpnahæð er

 • að efla hreyfiþroska og hreyfigetu
 • að auka sjálfstraust og vellíðan
 • að losa um streitu og umfram orku
 • að þekkja líkama sinn
 • að auka úthald
 • að efla samhæfingu
 • að vernda heilsu
 • að læra ýmis stöðuhugtök, átta sig á rými, fjarlægðum og áttum
 • að njóta þess að hreyfa sig og vera með
 • að fylgja fyrirmælum og reglum
 • að læra að vinna saman
 • að læra að taka tillit til og virða aðra í hópnum
 • að efla jafnréttisvitund barns


Leiðir

 • skipulögð hreyfistund einu sinni í viku
 • útivera á hverjum degi
 • vettvangsferðir í mismunandi umhverfi
 • svæði fyrir bolta- og klifurleiki
 • sjálfsprottinn leikur
 • gott leikrými úti og inni
 • tækifæri og tími til að prófa sig áfram
 • að leikskólakennari sé leiðandi og hvetjandi

 

Myndsköpun
Börn hafa ríka þörf fyrir að tjá sig með myndmáli á skapandi hátt. Sköpun barna byggist á skynjun þeirra og reynslu. Í Rjúpnahæð er lögð áhersla á að börnin tjái sig frjálst og að sköpunargleðin fái að njóta sín. Við höfum ramman sveigjanlegan, leyfum barninu að upplifa augnablikið og að stundin sé í senn lærdómur, gleði og uppspretta nýrra hugmynda.

 

Tónlist
Tónlist er ríkur þáttur í allri þjóðmenningu og mjög mikilvægur þáttur í leikskólanámi. Börn öðlast tónlistarþroska með því að fá fjölbreytta reynslu af tónlist og að kynnast hljóðum, tónum og hreyfingu í leik og starfi. Í leikskóla er umhverfi sem hvetur börnin til að fást við og njóta tónlistar á ýmsan hátt. Stutt er við sjálfsprottinn söng barnanna og tilraunir með hljóðgjafa. Tónlistarnám fer fram í öllu leikskólastarfinu hvort sem er í sögustundum, leiktímum, hópastarfi eða á útivelli. Tónlistarnám fer fram með hljóðfærum, hljóðgjafa, hreyfingu, söng, leikjum og hlustun.

Tónlistarnám í Rjúpnahæð á að stuðla að því að barn þroski með sér

 • næmni fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjanda
 • jákvæða sjálfsmynd
 • frumkvæði og frjálsa, skapandi tjáningu og túlkun á tónlist

 

Náttúra og umhverfi
Kynni barnsins við náttúruna eru þýðingarmikil fyrir þroska þess. Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka. Í leikskólanum er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim er séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni, veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum.

Í leikskólanum er meðvitað og markvisst unnið að endurvinnslu og umhverfismennt. Börnin taka þátt í flokkun og endurnýtingu á sem fjölbreyttastan hátt. Í leikskólum Kópavogs er unnið eftir ákveðinni umhverfisstefnu sem tekur til endurnýtingar, flokkunar á sorpi og þess að neysluvenjur leiði til betri nýtingar.
Í Rjúpnahæð er starfandi umhverfisráð sem saman stendur af einum starfsmanni frá hverri deild. Það eru þrír leikskólakennarar, þrír leiðbeinendur, starfsmaður eldhús, starfsmaður listasmiðju og leikskólastjóri. Hlutverk þess er að stuðla að því að leikskólinn verði umhverfisvænn. Umhverfisráðið stuðlar að betri umgengni og að virðing sé borin fyrir því. Það er ábyrgt fyrir því að koma upplýsingum til barna og starfsfólks.

Rjúpnahæð er umvafin fuglalífi, hestum, göngustígum og stutt er í græn svæði. Farið er í stuttar og langar vettvangsferðir í nágrenni leikskólans. Á leikskólalóðinni gefast ótal tækifæri til að upplifa náttúruna. Matjurtgarður er staðsettur á lóðinni þar sem börnin rækta matjurtir. Daglega er skipaður veðurfræðingur á hverri deild. Hann fræðir börnin um veðurfar og æskilegan klæðnað með tilliti til veðurs.