Elstu börnin hafa mikla þörf fyrir að takast á við verkefni sem reyna á færni þeirra bæði andlega og líkamlega. Sérstök áhersla er lögð á að þetta eru leikskólaverkefni og að hugmyndafræði og starfsaðferðir leikskóla eru lagðar til grundvallar. Með ýmsum krefjandi verkefnum læra þau að fullvinna verk sín, þjálfa einbeitingu, færni og úthald. Í leikskólum Kópavogs er sérstök námskrá ætluð elstu börnum leikskólans. Hún tekur til hreyfingar, málræktar, myndsköpunar, náttúru og vísinda, tónlistar og stærðfræði.

 

Markmið:

  • Barnið læri að vinna í hóp, taki tillit til annara, vinni sjálfstætt og taki sjálfstæðar ákvarðanir.
  • Efla einbeitingu, þolinmæði og að fara eftir fyrirmælum í hóp.
  • Barnið læri að tjá sig og hlusta á skoðanir annarra.
  • Að þau beri virðingu fyrir öðrum og geti sett sig í spor annarra.
  • Að barnið verði sjálfbjarga og geti hjálpað öðrum.
  • Auka félagsfærni og félagsþroska.
  • Að þau verði skapandi og virk.
  • Að tryggja þeim krefjandi verkefni
  • Barnið læri að vinna bæði einstaklingsverkefni og samvinnuverkefni.
  • Ritmál gert sýnilegt og unnið er með skráningu með frásagnir barnanna.

 

Könnunaraðferðin

Könnun er rannsókn sem miðar að því að setja sig inn í ákveðið viðfangsefni sem er þess virði að rannsaka. Mikilvægt er að það höfði til barnanna þ.e. eitthvað sem vekur áhuga og löngun til að vita meira.

Markmið aðferðinnar er að viðfangsefnið sem rannsakað er snerti þekkingu, færni, tilfinningalega næmni, námsvenjur og fagurfræði. Þess vegna er unnið á fjölbreyttan hátt og höfðað til mismunandi hliða barnanna. Aðferðin byggir á því að mæta börnunum þar sem þau eru og bæta við reynsluheim þeirra og þekkingu. Lykillinn að þessu er að kanna í upphafi reynslu þeirra og þekkingu á viðfangsefninu. Í framhaldi af því eru settar fram spurningar sem leiða rannsóknarvinnuna áfram. Starfið með börnunum felur í sér þrjú stig, upphaf, miðbik og enda.

 

Söguaðferðin

Söguaðferðin er kennsluaðferð, sem er notuð við þemavinnu hjá elstu börnunum í leikskólanum. Nafn sitt dregur hún af skipulaginu sem er eins og í sögu. Hún hefur ákveðna byrjun, söguþráðurinn skiptist í kafla sem tengjast og síðan er ákveðinn endir.

Þegar unnið er með söguaðferðinni er byrjað á að spyrja opinna spurninga til að finna út hvað nemendurnir vita, halda eða geta ímyndað sér. Þetta er oft gert með hugstormun. Kennarinn spyr og nemendur svara. Svörin skrifar kennarinn á töflu eins hratt og hann getur og þannig sjá börnin stafi verða að orðum. Opnar spurningar hafa ekki eitt rétt svar heldur geta svörin velt upp ýmsum möguleikum, sem aftur vekja umræður. Tilgangurinn með þessu upphafi er að fá nemendur til að hugsa sjálf, rifja upp eða að reyna að gera sér í hugarlund allt eftir þeirra reynslu og þekkingu.

Þó að söguramminn sé skapaður af kennaranum verður hann að vera reiðubúinn að bregðast við ef óvæntar uppákomur eiga sér stað og hugsanlega þannig að þær breyti gangi verksins. Þannig geta nemendur lagt til breytingar vegna áhuga á efninu sem leiða til þess að farið er út fyrir það og nýjar áherslur verða til. Kennarinn þarf því að vera opinn fyrir breytingum þó að hann stýri verkefninu og haldi utan um tilgang þess og leiðir.