Sumarskólinn - fyrsta vikan

Sumarskólinn hófst eins og áður hefur komið fram 1. júní síðastliðinn. Börnin eru mjög ánægð með sumarskólann og margt skemmtilegt í boði.

Undraland hefur haft nóg fyrir stafni fyrstu vikurnar í sumarskólanum enda lá á að setja niður margs konar grænmeti með þeirri von að uppskeran verði sælleg í haust.
Börnin á Móa voru í óða önn að setja niður útsæði, eða ¿mömmukartöfluna¿, og fengu um leið fræðslu um það hvað gerist síðan í moldinni. Hvernig mömmukartaflan býr til kartöflubörn úr spírunum og kartöflubörnin stækka síðan hægt og rólega í allt sumar. En til þess þurfa þau að fá vænan skammt af sól og vel af vatni ¿¿
Börnin á Mýri fengu það hlutverk að setja niður blómkal, spínat, salatblöð, gulrófur, graslauk og gulrætur. Þau stóðu sig svo vel og voru með eindæmum fljót að læra handtökin. Auk þess skreyttum við örlítið beðin okkar í garðinum með nokkrum vel völdum sumar blómum.
Inn á hverri deild verða börnin að rækta sín eigin sumarblóm og settu þau fræ ofan í pott í vikunni. Fræið þarf að fara aðeins ofan í moldina og þurfa allir að muna að vökva það vel. Nú krossum við fingur um að allir fái undurfagur sumarblóm til að taka með heim í sumarfrí.
Það sem bíður okkar í Undralandi næstu vikurnar er einfalt: vökvun og hreinsun á arfa.
Auk þess verðum við með ævintýri í sandkassanum sem verður aldrei leiðinlegt ¿¿


Á íþróttasvæðinu fóru þau meðal annars í gönguferð með nokkur börn af Álfta- og Krummahreiðri. Þau fundu sér svo grasblett þar sem þau renndu sér og róluðu og fórum í Dimmalimm, Hlaup í skarðið og boðhlaup, sem vakti mikla lukku. Á leiðinni til baka voru börnin dugleg að skoða umhverfið og týndu orma og lúpínu.

Lubbi er kominn í sumarskólann líka sem er frábær viðbót við orðafjör og hefur það svæði vakið mikla lukku, þar sem þau eru í skemmtilegum verkefnum. Í orða- og Lubbafjöri fyrstu viku sumarskólans gerðum við margt skemmtilegt. Við fórum í fjarsjóðsleit í sandkassanum og leituðum að steinum í sandinum sem málaðir höfðu verið með málhljóðunum. Þegar börnin fundu steina komu þau til okkar og sögðu okkur frá því hvaða málhljóð þau fundu og rætt var hvaða orð eiga málhljóðið. Við fórum í ratleik í garðinum þar sem leitað var að hinum ýmsu hlutum, köngulóm, sniglum, steinum, grasi, fuglum og fleiru. Teiknað var risastórt S á stéttina og börnin fengu það verkefni að fylla bókstafinn af hlutum sem eiga málhljóðið s. Þau áttu ekki erfitt með það; fundu steina, skóflur, snigil, sokka, sólarvörn, sólgleraugu, sand, sóp, spýtu. Að lokum tókum við hljóðasmiðju Lubba út og æfðum okkur að kríta bókstafi, orð og hluti sem eiga málhljóðin á stéttina okkar. Á meðan við krítuðum fór fram umræða og málörvun, við ræddum hljóðin, táknin, orð, bókstafi, rímuðum og skemmtum okkur vel! 

Danssmiðjan er mjög lifandi og skemmtileg, í fyrstu vikunni brölluðu þau margt saman. Á þriðjudaginn æfðum ýmsa dansa saman, þar á meðal dansinn við 10 Years eftir Daða Frey og Makarena. Börnin voru mjög áhugasöm og voru fljót að læra dansana. Á miðviku- og fimmtudag höfðum við frjálsan dans þar sem börnin gátu komið með óskalög til að dansa við. Vinsælustu lögin eru Zitti e buoni, Hard Rock Hallelujah, Eitt fyrir klúbbinn (Breiðablik), Refavísir, Baby shark og Let it go. Börnin hafa mörg mikinn áhuga á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða (Eurovision) og biðja óspart um að fá að hlusta á lögin úr keppninni í ár. Þegar við höfðum dansað nóg höfðum við ,,Karaoke-stemningu¿ en þá skiptast börnin á að syngja lag sem þau völdu í hljóðnema. Þeim þykir það mikið sport. Á föstudeginum prufuðum við okkur áfram í slæðu- og stoppdans ásamt því að fara í limbó. 

Búleikurinn og sullusvæðið er mjög vinsælt, enda mjög skemmtilegt að leika sér með vatn og drullu, búa til sinn mat og heimili ;)

Í frjálsa leiknum er mikið krítað, blásum sápukúlur í öllum stærðum, hringjaspil og margt fleira.

Fyrir utan svæðin á lóðinni fara deildirnar saman í vettvangsferðir á sínum útikennsludögum ;)

Ótrúlega skemmtilegir fyrstu dagarnir í sumarskólanum, allir svo glaðir og láta sólarleysið ekkert á sig fá <3

Myndir fylgja fréttinni endilega kíkið á þær - sumar myndirnar koma á hlið, það er einhver villa í forrituninni sem er í skoðun ;)