Almennt um leikskólastarf

Leikskólastarf og leikskólauppeldi byggir á sérstökum uppeldisaðferðum og sérstakri grundvallarhugmyndafræði. Þeir sem vinna að leikskólauppeldi sækja hugmyndir til kenninga og rita ýmissa heimspekinga og uppeldisfrömuða.

Í leikskólauppeldi er leikurinn leiðandi hugtak. Fræðimenn eru sammála um að leikurinn sé helsta náms- og þroskaleið barna og rannsóknir sýna að lítil börn læra og þroskast best í leik. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og jafnframt helsta kennsluaðferð leikskólakennarans. Leikskólauppeldi er annars konar uppeldi en það sem foreldrar veita og er mikilvæg viðbót við það. Foreldrar eru óumdeilanlega aðaluppalendur barna sinna og bera meginábyrgð á uppeldi þeirra.

Uppeldi og menntun leikskólabarnanna er samvinnuverkefni allra kennaranna í leikskólanum, þar sem þeir leggjast á eitt um að skapa börnunum gott, hlýlegt og fræðandi uppeldisumhverfi. Í leikskólastarfi fléttast saman á ýmsan hátt hugtökin leikur – vinna – nám. Börn í leikskóla læra fyrst og fremst í leik og daglegu starfi við eðlilegar og áþreifanlegar aðstæður. Líkamleg og andleg umönnun er forsenda þess að börn öðlist öryggiskennd og geti dafnað og lært af umhverfi sínu. Börnin þurfa að njóta sín sem einstaklingar, en jafnframt að læra að vinna saman, eignast vini og öðlast heilbrigða samkennd.

Skipulag og búnaður leikskóla á að stuðla að því að vekja forvitni barnanna, efla sjálfstæði þeirra og frumkvæði, virkni, áhuga og gleði.