Gleðilegt nýtt ár. Þrettándagleði og Rafmagnslausi dagurinn
Þrettándagleði í Rjúpnahæð
Við héldum upp á þrettándann síðastliðinn föstudag 5. janúar og kvöddum við jólin við hátíðlega athöfn við varðeld. Í vikunni hefur fræðsla og umræða um þennan dag átt sér stað og af hverju við höldum upp á hann. Gerð voru hugarkort inni á deildum í þeim tilgangi að fá fram sýn barnanna. Þau voru með það á hreinu að þrettándinn táknar að jólin séu búin, að þá séu jólasveinarnir farnir aftur heim til sín og á eldri deildunum fræddust þau um gamla íslenska þjóðtrú um talandi kýr, álfa sem flytjast búferlum og ýmislegt fleira.
Elstu börnin í Rjúpnahæð hafa í gegnum tíðina fengið það hlutverk að saga jólatréð niður og syngja nokkur lög með stjörnuljós við hönd. Þetta árið voru það börnin á Arnarhreiðri sem fengu þetta skemmtilega verkefni. Þau sungu lögin "Í skóginum stóð kofi einn" og "Álfareiðin" síðan sungu allir saman nokkur lög með Hrönn leikskólastjóra sem forsöngvara til að kveðja jólin með stæl. Á meðan ljúfir tónar fylltu garðinn brann jólatréð í mikilfenglegri brennu í miðjum hringnum.
Rafmagnslausi dagurinn
Þriðjudaginn 9. janúar héldum við svo upp á rafmagnslausa daginn hjá okkur :) Þá eru öll ljós slökkt/eða sleginn út og við skemmtum okkur í myrkvinu!
Í samverustund var farið yfir hvað rafmagnið nýtist okkur mikið. Í hádeginu var svo boðið uppá jógúrt og alls konar gúmmelaði út í jógúrtið og borðuðu börnin mjög vel af því.
Rafmagnslausi dagurinn er upphaf umræðu og fræðslu á gömlu dögunum sem lýkur á bóndadegi. Börnin fá margskonar fræðslu um lifnaðarhætti á þessum tímum. Fræðslan um rafmagnið og rafmagnslausa daginn tengist gömlu dögunum og Þorranum sem nálgast hjá okkur. Þar sem börnin fræðast um gömlu dagana þegar ekki var til rafmagn í húsum og híbýlum.