Næstu vikur hjá okkur á Rjúpnahæð

Sumarskóli Rjúpnahæðar byrjar núna mánudaginn 3. júní. Þá er öll starfsemi leikskólans flutt út. Meginmarkmið okkar er að sumarstarfið byggist á gleði og ævintýri. Að það höfði til áhugahvöt hvers og eins til að rannsaka, uppgötva og leita svara í umhverfi sem er viðurkennandi, þar sem bæði barnið og hinn fullorðni fær að njóta sín. Ákveðin viðfangsefni eru í boði á ákveðnum stöðum, innan leikskólalóðarinnar og utan hennar. Í sumarskólanum höfum við 2. , 12. og 29. greinar Barnasáttmálans að leiðarljósi þar sem ríkir jafnræði og allir fá að njóta sín á sínum forsendum, allir hafa rétt á sínum skoðunum og láta þær í ljós og allir fá menntun sem gefur þeim tækifæri til að þroskast á sínum eigin forsendum og rækta hæfileika sína.  
Þau svæði sem sumarskólinn býður uppá eru Búleikur, Íþróttasvæði, Könnunaraðferð og úrvinnsla, uppgvötunarsvæði, orðafjör, danssvæði og frjáls leikur.


Þá er einnig mikil eftirvænting eftir útskriftarferðinni sem útskriftarbörnin fara í ár hvert. Í ár eins og á síðasta ári verður farið í Vatnaskóg og þegar þau komu í Vatnaskóg verður alls konar skemmtilegt gert á svæðinu.
Útskriftarferðinn er 17. maí.

Nú styttist óðum í að elstu börnin á Rjúpnahæð útskrifist úr leikskólanum, útskriftardagurinn er 7. júní. Útskrift úr leikskóla er alltaf stór áfangi í lífi barnanna og eru þau orðin mjög spennt að enda þennan leikskólakafla og byrja nýjan kafla í lífi sínu með því að byrja í skóla.
Eftir útskriftina hjá börnunum halda þau í Ævintýraland. Ævintýraland er sumarskóli fyrir elstu börnin í Rjúpnahæð sem er starfræktur frá Salaskóla. Ævintýraland er samvinnuverkefni á milli Rjúpnahæðar og Fífusala.
Í Ævintýralandi er spennandi, fjölbreytt og krefjandi nám með elstu börnunum. Þar dvelja börnin með kennurum sínum í ca 4 vikur. Umhverfi Salaskóla býður upp á meira frjálsræði og læra þau enn frekar að bera ábyrgð á sjálfum sér og umhverfi sínu, að bera virðingu fyrir hvort öðru og stuðla að sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni. Þar fá þau einnig tækifæri á því að kynnast skólaumhverfinu sem við teljum vera gott veganesti fyrir krakkana.