Sumarskólafréttir og myndir

Sumarskólinn okkar byrjaði fyrir rúmri viku, við erum búin að fá allskonar veður og bralla ýmislegt bæði inni á leikskólalóðinni og fyrir utan hana.

Í Undralandi settum við niður klettasalat, grænt salat, rófur og gulrætur með börnunum. Einnig voru yngri börnin búin að setja niður kartöflur. Börnin hjálpuðu einnig til við að vökva grænmetið og kartöflurnar svo að það vaxi og dafni.

Í búleiknum eru kofarnir gerðir heimilislegir með gluggatjöldum og teppum og börnin leika sér við potta, pönnur og ýmis áhöld til þess að geta leikið sér í allskonar hlutverkum og leyft ímyndunaraflinu að ráða. Auk þess að hafa þau borð og stóla, dúkkur og kerrur sem gerir leikinn enn skemmtilegri. Það er vatn ekki langt frá þannig að þau geta drullumallað og ef veðrið er gott eru tekin fram tjöld og teppi sett á grasið. Búleikurinn er opinn allan daginn og í lok dags hjálpast börn og starfsfólk við að þrífa og taka til dótið á svæðinu.

Á uppgötvunar- og útikennslusvæðinu er aðstaða til þess að sulla með vatn, smíða, kanna skordýr og plöntur, uppgötva og leika. Svæðið hefur verið einstaklega vinsælt meðal barnanna og eru mörg þeirra fastagestir á svæðinu. Vinsælast hefur verið að fá að leika með vatnið, ýmist að setja upp braut úr rörum og sjá hvað vatnið getur runnið langt eða flytja vatn í ílátum yfir á búleikssvæðið og elda mat úr því þar.
Hjá elstu börnunum hafa smíðarnar staðið uppúr. Þau hafa verið iðin við að búa til allskyns skúlptúra og byggingar úr spýtum. Þau saga, negla, pússa með sandpappír og jafnvel mála það sem þau hafa búið til á svæðinu. Gaman er að sjá hvað ímyndunarafl þeirra er ört og sjá hvernig hugmyndir þeirra þróast í framkvæmd.
Á mánudaginn síðastliðinn var farið í smá vettvangsferð fyrir utan skólalóðina í leit af skordýrum. Fundum við þónokkur skordýr og skoðuðum þau með stækkunarglerum og smásjáum í útikennslukofanum okkar. Börnin voru mjög áhugasöm um þessi smáu dýr og höfðu mikinn áhuga á að kynnast þeim betur. 

Í frjálsa leiknum höfum við verið að leika með sápukúlur, bolta og krítar sem er alltaf jafn vinsælt.

í dans og leiklistarsmiðjunni hefur verið mikið líf og fjör og mikil þátttaka hjá börnum af öllum deildum. Við erum búin að dansa marga dansa saman og kynnast allskonar danshugtökum. Við höfum t.d prufað að dansa með slæður og æft okkur að dansa hægt og hratt. Við erum að læra að hlusta á taktinn í lögum og finna jafnvægið okkar. Krakkarnir hafa brugðið sér í hin ýmsu gervi og var mjög skemmtilegt að sjá þau leika ljón og varúlfa og öskra og ýlfra af miklum krafti. Karaoke mánudagar hafa slegið í gegn hjá krökkunum og því höfum við haft mini karaoke hina dagana líka, þar er ¿Let it go¿ og ¿Lagið um það sem er bannað¿ vinsælast að syngja. Það er gaman að sjá hvað krakkarnir á yngstu deildum hafa mikinn áhuga og eru dugleg að taka þátt.

Fyrsta daginn á íþróttasvæðinu var farið á túnið hjá Rjúpnasölum í nokkra leiki. Köttur og mús, 1,2,3,4,5 dimmalimm, stórfiskaleikur og fleiri leiki. Við erum búin að fara í gönguferðir og á leikvelli í kringum leikskólann. Við fórum í ratleik. Þar sem búið var að hengja upp og fela nokkrar myndir úr teiknimyndaþáttunum um Dóru og Diego og börnin fengu blað og áttu að reyna að finna allar myndirnar.

Í uppgötvun og úrvinnsla höfum við verið á síðustu dögum erum við búin að vera að rannsaka okkar nánasta umhverfi og líka í garðinum okkar. Við erum enn að finna nýjan gróður og finna út hvað hann heitir. Við erum búin að setja blóm og strá í pressun og ætlum að halda áfram að safna svo að við getum búið til listarverk.

Með fréttinni fylgja fullt af myndum sem gaman er að skoða, nokkrar eru á hlið sem er bara skemmtilegt :)