Covid-19 tímar

Ég vil enn og aftur þakka ykkur fyrir hjálpina og stuðninginn við þær breyttu aðstæður sem við höfum þurft að aðlaga okkur að nú aftur í baráttunni við Covid-19. Þetta gengi aldrei svona vel nema með ykkar aðstoð og skilning. Það hefur gengið mjög vel að hafa leikskólann hólfaskiptan. Börn og starfsfólk hafa þurft að aðlaga sig aðstæðum og hefur það gengið nokkuð vel. Við reynum að nota útiveruna eins mikið og kostur er og höfum við aldeilis verið heppin með veður síðustu daga. Með hólfaskiptingunni erum við að minnka skörun fullorðna og einangra það við viss svæði þannig að ef að upp kæmi smit á öðrum hvorum gangi þyrfti eingöngu helmingurinn að fara í sóttkví. Með þessum breytingum dreifum við ekki úr starfsfólki og það reynir eftir fremsta megni að halda sig við sína heimastofu. Allir gera sitt besta og fara varlega. Engin starfsmaður fer milli hólfa og getum við því ekki leyst af á milli hólfa Mýri/Móa. Ef að upp koma þær aðstæður að mikið af fólki er frá vegna veikinda eða sóttkvía, og við náum ekki að leysa það, gæti komið upp sú staða að við yrðum að óska eftir því að börnin séu sótt fyrr þann daginn, en bara ef að til þess kemur. Við komum til með að vera hólfaskipt að minnsta kosti til 19.október nk en þá verður staðan endurmetin.

Við biðjum ykkur einnig að ef börnin þurfa að fara í sóttkví að þið upplýsið okkur í leikskólanum um það með því að hafa samband við deildastjóra eða leikskólastjóra. Hafið einnig í huga að ef að einhver fjölskyldumeðlimur er í sóttkví má barnið ekki umgangast þann einstakling nema það fari sjálft í sóttkví og einstaklingur sem er í sóttkví má ekki koma með barn í leikskólann. 

Við viljum gera allt til þess að leikskólinn geti verið opinn eins og kostur er og skiptir því gríðarlega miklu máli að allir passi sig, sínar sóttvarnir og séu skynsamir. 

Bestu kveðjur
Margrét aðstoðarleikskólastjóri