Leikskólastefna Rjúpnahæð

Hugsmíðahyggja

Leikskólinn vinnur samkvæmt leikskólastefnu Kamii og DeVries, sem byggist á hugsmíðahyggju. Hugsmíðahyggja á rætur sínar að rekja til kenninga svissneska fræðimannsins, Piaget og rússans Vygotsky, um hvernig barnið byggir upp þekkingu og hvernig það lærir með eigin virkni. Tækið sem barnið notar til náms er leikurinn, hann er kjarninn í uppeldi og menntun þess. Litið er á barnið sem virkan aðila að eigin uppbyggingu félagslegrar færni, siðgæðis- og vitsmunaþroska. Í Rjúpnahæð er jafnframt stuðst við kenningar norska fræðimannsins Berit Bae, en hún leggur áherslu á viðurkennandi samskipti og viðmót. Meginmarkmið leikskólans er að stuðla að sjálfræði barnanna.

Hvað er sjálfræði og hvernig stuðlum við að sjálfræði?

 

Sjálfræði

Sjálfræði er hugtak sem er í brennidepli í kenningum Kamii, DeVries og Piaget. Sjálfræði er að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þekkingu og vangaveltum um hvað maður sjálfur telur rétt og rangt. Sjálfræði felur í sér ábyrgð og sjálfsaga.

  • Sjálfræði kemur innan frá og einungis með samvinnu
  • Sjálfræði er ekki það sama og algert frelsi, heldur tekur einstaklingur, sem býr yfir sjálfræði, tillit til þeirra sjónarmiða sem máli skipta og fyrir liggja þegar hann tekur ákvarðanir. Sjálfræði felur í sér að taka tillit til annarra
  • Sjálfræði er til staðar þegar barn lætur stjórnast af sjálfu sér
  • Sjálfræði er forsenda lýðræðis


 Það sem ýtir undir sjálfræði er:


Virðing
 Gagnkvæm virðing

Viðurkenning
 Viðurkenning á rétti barnsins til eigin skoðana, tilfinninga og upplifana. Viðurkenning hins fullorðna felur í sér að viðhorf hans til barnsins sé að það hafi rétt til sjálfstæðra hugsana.

Samvinna
 Umhverfi þar sem stuðlað er að samvinnu milli barna og fullorðinna. Frelsi tilað velja, hafna og láta í ljós skoðanir sínar.

Lýðræði
 Að taka ákvarðanir með öðrum, kjósa og komast að niðurstöðu.

Ábyrgð
 Að bera ábyrgð á ýmsum verkefnum í leikskólanum t.d. er varða umhverfið s.s. tiltekt. Læra þannig smám saman að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum og eigin lífi

Áhugi
 Nám barna byggist á áhugahvöt. Verkefni eru því áhugaverð þar sem barnið leitar, rannsakar og skapar.
 Val á viðfangsefnum
 Að barnið geti ákveðið hvað það langi til að gera

Væntumþykja
 Samskipti sem einkennast af hlýju, kærleika, gleði og nánd.

Umhverfi
 Þar sem börnin hafa aðgengi að efnivið og verkefnum til að stuðla að sjálfbjargarviðleitni og sjálfstæði sínu. Að andrúmsloftið sé frjálslegt og hlýlegt.

Ágreiningur
 Að nýta sér ágreining sem leið til að þroskast í samskiptum, með því að finna leiðir til að leysa deilur á friðsamlegan hátt þannig að engin sé niðurlægður þó svo að hann bíði ,,ósigur”.

Öryggi
 Að barnið finni að það sé öruggt í umhverfi sínu. Stuðlað er að markmiðum sjálfræðis í öllu starfi leikskólans.


 Í daglegum venjum:

  • matmálstímum
  • hvíld
  • útiveru
  • snyrtingu
  • fataklefa
  • samverustundum

Í hópastarfi:

  • Hreyfing
  • Þemastarf
  • Myndlist
  • Tónlist


 Leiðir í hópastarfi:

  • Söguaðferðin
  • Könnunaraðferðin
  • Könnunarleikurinn

 

Kennifrömuðir

Hér má lesa til um kennifrömuði 

 

Samskiptastefna

Samvinnuagi
 Agi felur það í sér að barn og kennari temji sér þær umgengisreglur að þau  lifi í sátt við umhverfi sitt og að öðrum líði vel í kringum þau. Agi er félags-, siðgæðis- og tilfinningaþroski. Markmið okkar er ekki ögun, heldur vinnum við með barnið á meðan það smám saman byggir upp eigin innri skilning um tengsl sín við aðra og um leið stuðlum við að sjálfstjórn og sjálfstæði.

 Barn hefur áhuga á að læra. Það lærir mest þegar því líður vel og er öruggt með sig. Það ber ábyrgð á sjálfu sér með því að viðurkenna og takast á við eðlilegar afleiðingar hegðunar sinnar. Að nota samvinnu til að gera barninu kleift að byggja upp sannfæringu og fylgja eigin félags- og siðgæðisreglum sem eru óháðar valdi fullorðinna. Notuð eru viðurkennandi samskipti og opnar spurningar, sem fela í sér virka hlustun þ.e. hvað er barnið raunverulega að segja. Hlusta, skynja tilfinningar, virða þær og hjálpa því að tjá sig. Viðurkenning sem felur í sér þann rétt sem barnið hefur og að það þurfi ekki að vera sammála. Agi er langtímamarkmið.

 Börn og starfsmenn sameinast um að móta fáar, skýrar og jákvæðar reglur sem beinast að því að örva samvinnu og auka virðingu. Þær þurfa að vera skriflegar og forðast ber að nota orðin ekki eða bannað. Nauðsynlegt er að allir skynji reglurnar sem sínar, þekki þær og fari eftir þeim. Taka þarf fram að reglum má breyta. Sameinast þarf um afleiðingar þeirra, þ.e. hvað gerist ef ekki er farið eftir þeim. Ef afleiðingin er óréttlát miðað við það sem var ákveðið, þarf að láta reyna á hana og skoða regluna í kjölfarið. Ef reglan er óheppileg þarf að meta hvort hægt er að leyfa að hún sé reynd.


Reglur er varða öryggi barnanna
Agi þar sem hinn fullorðni þarf að grípa inn í til að tryggja öryggi barnsins og annarra t.d. þegar barn fer út um hliðið eða hleypur á göngunum.


Að fjarlægja barn úr hópnum
Mikilvægt er að fjarlægja ekki barn úr hópnum án þess að taka það fram hvernig og hvenær barnið geti komið aftur inn í hópinn. Best er að barnið sjálft beri ábyrgðina á hvenær. Starfsmaður skýrir orsök og afleiðingu og veitir barninu val. Nauðsynlegt er að veita barninu tækifæri á að bæta hegðun sína, t.d. ef það truflar mikið getur þurft að biðja það að fara fram og sitja við borð og koma svo aftur þegar það er tilbúið. Kennari þarf að sýna skilning á að barnið vilji kannski ekki vera í hópnum og bjóða því upp á aðra leið sem hefur ekki í refsingu í för með sér, heldur leið til að draga sig hlé á þann hátt að það haldi sjálfstæði sínu. Með því að setja sig inn í sjónarmið barnsins getur kennari leitt það til skilnings á sjónarmiði hópsins.


Ágreiningur/að leysa deilur
Börn þurfa að fá tækifæri til að leysa ágreining sín á milli. Árekstrar eru tækifæri til náms. Börn þurfa að upplifa örsök og afleiðingu. Lögð er áhersla á gagnkvæma virðingu og forðast tilhneigingu barnsins að þóknast fullorðnum.


Leið til að leysa ágreiningsmál

  • Stöðva ofbeldi, taka ábyrgð á líkamlegu öryggi barnsins og róa það
  • Safna upplýsingum, viðurkenna, virða tilfinningar og skoðanir barnsins á árekstrinum
  • Skilgreina vandamálið/ágreininginn, styðja og hjálpa barninu við að tjá hvernig því líður og hvers má vænta af hinum og hlusta á hvert annað
  • Setja fram mögulegar lausnir,gefa barninu tækifæri og hvetja það að koma með lausnir, en koma með tillögur ef það hefur engar
  • Sameinast um lausn sem báðir (allir) aðilar sætta sig við, leggja áherslu á gildi þess að komast að samkomulagi og gefa barninu tækifæri til að gagnrýna tillögur sem koma fram
  • Framfylgja ákvörðuninni

 

Framtíðarsýn

Við viljum að börnin verði sjálfstæðir einstaklingar sem séu hæfir til að takast á við lífið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Við viljum að börnin þrói með sér gagnrýna hugsun og ígrundi ákvarðanatöku, geti valið og hafnað og verði fær til að takast á við hið óþekkta, framtíðina, sem við vitum það eitt um, að hún verður ólík nútímanum. Við viljum að börnin verði einstaklingar sem kunna að vinna með öðrum. Að þau verði hamingjusamir og glaðir einstaklingar sem eiga auðvelt með að mæta þeim verkefnum sem bíða þeirra í framtíðinni.

Rjúpnahæð setur sér ákveðna áhersluþætti eða markmið, eitt eða fleiri, sem unnið er sérstaklega með í lengri eða skemmri tíma. Þessi áhersluatriði/markmið eru oftast hluti af ársáætlun leikskólans.

Eftirfarandi langtímamarkmið eru höfð að leiðarljósi í Rjúpnahæð:

  • að þjálfa starfsfólk í því að vinna samkvæmt þeirri stefnu og markmiðum sem leikskólinn setur sér
  • að læra að tileinka okkur hvernig við vinnum samkvæmt hugsmíðahyggju með, aga, ágreining, ábyrgð, samvinnu, lýðræði, viðurkennandi samskipti, sjálfstæði og gleði
  • að finna það skipulag sem samrýmist þeirri stefnu sem leikskólinn hefur sett sér
  • að stefna leikskólans endurspegli allt starf okkar

Í Rjúpnahæð eru eftirfarandi skammtímamarkmið höfð að leiðarljósi:

  • að skipuleggja umhverfið samkvæmt stefnu leikskólans
  • að umhverfið verði aðgengilegt börnum og starfsfólki

Þema eða viðfangsefni sem tekið er fyrir í ákveðinn tíma


Í Rjúpnahæð er unnið með ákveðið efni eða þema. Oft er eitt þema valið fyrir leikskólaárið og er það hluti af ársáætlun. Ég sjálf/ur er þema sem ávallt er unnið með í leikskólanum. Unnið er með hugtök sem endurspegla m.a. lýðræði, ábyrgð, samvinnu og virðingu. Unnið er með þetta þema á margbreytilegan hátt, börnin læra að nota öll skilningarvit og vinnuaðferðir við að nálgast viðfangsefnið.

Þema sem unnið er með í skemmri eða lengri tíma getur þróast eftir áhuga barnanna og ýmsu því sem kemur upp í hópvinnu og daglegu starfi í leikskólanum.

Í Rjúpnahæð eru eftirfarandi fyrirfram ákveðin þema bundin árstíðum:

  • Dagur íslenskrar tungu; unnið með fræðslu, ljóð, lestur
  • 1. desember; unnið með fræðslu
  • Jólaverkstæð; fyrir jólamánuðinn er unnin verkstæðisvinna um allt hús
  • Jólamánuðurinn; unnið með fræðslu,leikrit,kór og haldin hátíð
  • Þrettándinn; unnið með fræðslu, piparkökuhús brotið og haldin hátíð
  • Þorrinn; unnið með fræðslu ,hattagerð og víkingahátíð (þorrablót)
  • Öskudagurinn; unnið er að búningagerð,fræðslu og hátíð
  • Páskar; unnið með fræðslu og skapandi starf
  • Sumarstarf; unnið í rannsóknar- og vísindastarfi, fræðsla,vettvangsferðir, gróðursetning og sumarhátíð
  • 17. júní; unnið með fræðslu og hátíðarkaffi

 

Þið getið fræðst meira um hefðir okkar í Rjúpnahæð með því að smella á námið og svo hefðir hér fyrir ofan