Skólastarfið á Rjúpnahæð

 

Í daglegu lífi og leik barnsins fléttast saman fjölbreyttnámssvið og námsþættir. Í leikskólanum er barnið í brennidepli og starfshættir taka mið af þroska og þörfum hvers einstaklings. Til þess að svo megi verða er leikskólastarfinu skipt í ýmiskonar leik-, náms- og samverustundir bæði inni og úti. Lögð er áhersla á að drengir og stúlkur hafi sama rétt, fái sama viðmót og njóti sömu hvatningar og örvunar til að taka þátt í öllum þeim viðfangsefnum sem boðið er upp á í leikskólanum.

Rjúpnahæð er skipt upp í nokkur svæði og fá börnin að velja sér ýmis hlutverk yfir árið. Undir flipanum Skólastarfið á Rjúpnahæð hér til vinstri eru skilgreind markmið okkar sem og nánari útlisting á hverju svæði og athöfn fyrir sig.

 

Sumarhátíð

Sumarhátíð er árlega haldin í leikskólanum. Foreldrafélagið og leikskólinn hafa haldið hátíðina saman. Hún er fyrst og fremst hugsuð til að hafa gaman saman og njóta afraksturs sumarskólans. Byrjað er á vinastund við eldstæðið. Útisvæði leikskólans verður að ævintýraveröld þar sem boðið upp á... mismunandi svæði, þar sem börn og fullorðnir geta notið samvista.

Sumarskóli er í Rjúpnahæð í júní. Þá er starfsemi leikskólans flutt út.
Meginmarkmið okkar er að sumarstarfið byggist á gleði og ævintýri. Að það höfði til áhugahvöt hvers og eins til að rannsaka, uppgötva og leita svara í umhverfi sem er viðurkennandi, þar sem bæði barnið og hinn fullorni fær að njóta sín. Ákveðin viðfangsefni eru í boði á ákveðnum stöðum, sem geta verið á leikskólalóðinni og fyrir utan. Í júlí og ágúst er hefðbundin dagskrá úti og inni, ásamt sumarfríi.

Uppskeruhátíð er haldin í lok september. Þá er boðið upp á hlaðborð með uppskeru og afrakstri sumarsins.

 

Lífsleikni

 Með lífsleikni er átt við hæfni til að takast á við lífið sjálft. Segja má að leikskólanámið sé í raun samfellt lífsleikninám. Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra umburðarlyndi í samskiptum sínum og samneyti við aðra, læra að bera virðingu fyrir ólíku atgervi, skoðunum og menningu. Vinátta og samkennd er dýrmætt veganesti og góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarfi síðar í lífinu.

Barnið þarf að tileinka sér lífsgildi, reglur, venjur og hefðir sem ríkja heima, í leikskólanum og í samfélaginu í heild. Í leikskólanum er frumkvæði barnanna eflt og styrkt, þannig verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Þau eiga að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski leyfa. Í leikskóla á barnið að fá tækifæri til að læra að leysa deilur á jákvæðan og friðsamlegan hátt og læra að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálft sig og umhverfi sitt.

 

Útivera

Útivera býður upp á góða hreyfingu og er mikilvægur þáttur í leikskólauppeldi. Hún byggist á því að börn geti leikið sér frjálst og fengið útrás fyrir hreyfiþörf sína á jákvæðan hátt jafnframt því að vera í snertingu við náttúruna, en einnig er boðið upp á skipulagða leiki, t.d. ýmsa hópleiki. Útivera er börnum holl, styrkir og eflir, eykur mótstöðuafl og matarlyst.

Að öllu jöfnu fara öllu börn út einu sinni til tvisvar á dag. Í útiverunni gefast ótal tækifæri til náms, t.d. um náttúruna og veðrið. Á sumrin þegar veður er gott nýtum við hvert tækifæri til að vera úti og flytjum því hluta af starfseminni út.

Útisvæðinu er skipt upp í fjögur svæði, þar sem einn starfsmaður hefur umsjón með hverju svæði, til að auka öryggi barna.

Markmið með útiveru er:

 • að efla alhliða þroska
 • að auka andlega- og líkamlega heilsu, vellíðan, styrk og þol

 

Reglulega er komið upp sérstöku íþróttasvæði þar sem kennarar fara með börnum í boltaleiki, frjálsar íþróttir og gönguferðir.

Hlutverkasvæði, er á allri leikskólalóðinni þó sérstaklega við litlu húsin í garðinum. Börnin geta útbúið sér heimili, með eldhúsáhöldum, borði, gardínum o.fl. Kassi með mold er til staðar til að börnin fái tækifæri að drullumalla. Þeim er frjálst að fara um útisvæðið með leik sinn eins og á öllum svæðum.

Í útiveru leggjum við áherslu á náttúruna og vinna börnin í litlum garði við hlið hússins. Það er gaman að gróðursetja en það er ekki sama hvernig það er gert. Gróðursetningu þarf að undirbúa vel eigi hún að bera tilætlaðan árangur. Plöntur eru lifandi verur. Þær þarf að meðhöndla varlega og sjá til þess að þær hafi það sem þær þurfa til að lifa af. Það er ekki sama hvar þær eru gróðursettar, þar sem mismunandi land hentar plöntum misvel. Eins er ekki sama hvernig plöntur eru gróðursettar.

 

Vinastund

Á hverjum föstudegi hittast öll börn og allir starfsmenn skólans fyrir hádegismatinn og eiga notaleg stund saman þar sem mikið er sungið. Stundin byrjar og endar alltaf á sama laginu en textinn er eftirfarandi:

 Vinastund, vinastund það er gaman

 Það er gaman að vera saman

 vera saman ég og þú

 

Vettvangsferðir

Vettvangsferðir eru hluti af starfi leikskólans. Börnin fara með kennurum sínum og tengjast þær gjarnan því námsefni/þema sem verið er að fjalla um hverju sinni. Í vettvangsferðum kynnast börn nánasta umhverfi sínu. Þau fara ýmist út í náttúruna eða í heimsókn á vinnustað eða í þjónustufyrirtæki og gefur það börnunum reynslu sem hægt er að vinna úr, t.d. í skapandi starfi.

Vettvangsferðirnar eru hluti af menningu og samfélagsnámi barnanna. Annað hvort eru þær farnar með strætó eða í formi gönguferða sem eykur þannig þol þeirra og úthald. Í vettvangsferðum læra börnin að virða þær reglur sem eru í þjóðfélaginu. Þau læra að taka tillit til umhverfisins og virða það. Ýmist er farið í litlum eða stórum hópum. Reynt er að tryggja öryggi barnanna í þeim ferðum sem farnar eru. Börnin nota endurskinsvesti sem eykur öryggi þeirra í umferðinni. Aldrei er farið með börnin í einkabílum starfsmanna. Öll börn í leikskólum Kópavogs eru slysatryggð, einnig í þeim ferðum sem farnar eru á vegum leikskólans.

Markmið vettvangsferða er:

 • að víkka sjóndeildarhring
 • að kynnast menningu og listum
 • að tengjast nánasta samfélagi sínu
 • að kynnast nánasta umhverfi og náttúru.

Ekki má gleyma að nefna skógarferðir allra barnanna í Rjúpnahæð, sem farið er í á vorin upp í Heiðmörk/Guðmundarlund. Skógarferðir, eru ævintýraferðir. Valinn er góður dagur til að tjalda,grilla, fara í leiki, skoða umhverfið og fara í rannsóknarleiðangur. Nauðsynlegt er að hafa með sér bæði stækkunargler, krukkur, tangir, gúmmíhanska og plastpoka, því margt er tekið heim með sér til að rannsaka betur. Tilvalið tækifæri til að kynnast náttúru og umhverfi betur og fræða börnin um hvað er leyfilegt í náttúrunni.

Í leikskólanum Rjúpnahæð er farið í útskriftarferð í maí. Farið er í dagsferð þar sem Árbæjarsafn er heimsótt og farið er að rótum Esjunnar. Þar grillum við og fáum okkur að borða og síðan er farið í göngu og leiki.

 

Samverustundir

Í samverustundum eru lesnar sögur, sungið, farið í leiki og rætt saman. Einnig er fjallað um ýmis þemaverkefni sem verið er að vinna að. Ýmis fræðsla tengd menningu og listum fer þar fram, fjallað er um heiti daganna og mánaðanna og einnig er veðráttan og tíðarfarið rætt í tengslum við árstíðirnar. Samverustundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags- og málþroska barnanna, þau tjá sig og læra að hlusta á aðra.

Markmið með samverustundum er:

 • að stuðla að alhliða námi
 • að örva vitrænan, félagslegan- og siðgæðislegan þroska
 • að þróa með sér sjálfsstjórn, samvinnu og samræma mismunandi sjónarmið
 • að þau skynji sig sem hluta af hóp
 • að eiga notalega stund saman

 

Veðurfræðingur, er umsjónarmaður sem valinn er í samverustund. Hann fær það hlutverk að gera veðurathugun og lætur skólafélaga sína vita um niðurstöður þeirra með því að hengja upp á Íslandskort tákn sem einkenna veðurfar dagsins og klæðnað. Börnin læra með þessu smám saman að klæða sig eftir veðri. Þau læra um veðrið, árstíðarnar, hugtök sem tengjast veðrinu og áhrif veðráttu á landslag. Veðurfræðingur horfir til Esjunnar þegar hann athugar hvernig veðrið er.

 

Sögustundir

 Í sögustund er lögð áhersla á að þau læri að vera saman í hóp og hlusta. Enn fremur er hún mikilvægur vettvangur fyrir málörvun og til að miðla fróðleik og reynslu. Þau þjálfast í að hlusta og sögustundin hjálpar þeim að skilja tilfinningar sínar og annarra. Enn fremur er þetta vettvangur til að kynna þeim hvernig á að umgangast bækur.

Í sögustundum er deildinni skipt niður í hópa þar sem lesin er bók og fjallað er um hana eða sögur sagðar.

Hópvinna

Börn, sem eru saman í hóp, læra að þekkja hvert annað og treysta hvert öðru og er það grundvöllur að góðu samstarfi og vináttu. Hópvinna yngstu barna 1-3 ára felst í því að þau fara í könnunarleik, hreyfingu, myndlist, þema og tónlist. Börnunum er skipt niður í hópa þar sem yngri börn eru 4-6 í hóp, en á eldri deildum er fjöldinn mismunandi eftir aldri þeirra og er alltaf sami kennari með þann hóp.

Hópvinna eldri barna 4-5 ára felst í því að þau fara í þema verkefni, hreyfingu, myndlist og tónlist.

Markmið með hópvinnu er:

 • að börnin fá tækifæri til að starfa í hópi jafnaldra við hin ýmsu viðfangsefni sem oftar en ekki tengjast þema vetrarins hverju sinni, þar sem reynir á samvinnu, virðingu, tjáningu og rökhugsun
 • að börnin öðlist jákvæða sjálfsmynd
 • að auka samskiptahæfni

 

Val

 Val er grundvallað á hugmyndum uppeldisfrömuða um áhugahvöt og virkni barnsins. Val gefur börnunum kost á fjölbreyttum verkefnum og húsnæði og búnaður leikskólans nýtist vel. Leikskólakennarar hafa ekki áhrif á val barnanna.

Börnin fara á leikfangasafn sem er í miðjum leikskólanum, þau sækja sér viðfangsefni sem þau vilja hverju sinni. Leiktilboðin eru í kassa með ljósmyndum og einkenna þær það sem er í kassanum. Tvær ljósmyndir eru á kassanum, önnur er tekin af og sett á töflu sem einkennir deildina þannig að allir vita hvar viðkomandi leikföng eru staðsett, hin myndin er á kassanum áfram.

 Þau leiktilboð sem börnin taka með sér inn á deild, einkenna þau valtilboð sem eru inn á deildinni. Val í flæði einkennist af því að starfsmenn eru ábyrgir fyrir ákveðnum svæðum en börnin finna sér viðfangsefnii. Byggingaleikur, hlutverkaleikur, bókasafn, rannsókna- og vísindastarf, bakstur, stærfræði, myndlist, smíðar, tónlist, hreyfing o.fl. er í vali. Börnin finna sér viðfangsefni og markmiðið er að þau finni hversu mörg eru á hverju svæði, að þau læri að finna jafnvægi í leiknum.

Smíðasvæði

Frjáls efniviður er á smíðasvæði. Langar- og stuttar spýtur, kubbaspýtur, mjóar og þykkar. Áhöld sem þarf til smíða, naglar, hamrar, sagir, sandpappír o.fl. Barnið fær að skapa eftir eigin hugmyndaflugi og frumkvæði, samt með flæði á milli svæða í huga ef áhugi barnsins leitar úr smíðasvæði áfram í annað svæði til að fullklára verkið.

 

Skapandi starf

Börnin vinna með frjálsan efnivið í samvinnu við önnur svæði, m.a. undirbúa þau sumarhátíðina. Þau fá að njóta sín í skapandi umhverfi, kynnast hinum ýmsu eiginleikum efna og verða sjálfbjarga í verki. Frumkvæði þeirra og sköpunargleði er höfð að leiðarljósi. Skapandi starf er allt í senn lærdómur, gleði og uppsprettu nýrra hugmynda.

 

Útskrift

Formleg útskrift elstu barnanna er um miðjan maí. Þar koma börnin ásamt foreldrum sínum í leikskólann og þau formlega kvödd. Börnin fá kveðjuskjal, blóm og eru með uppákomu fyrir foreldra sína. Leikskólinn býður að lokum upp á kökur og kaffi.

 

Tölvur

Markmið með notkun tölva í leikskólastarfi er:

 • að leikskólabörn fái að kynnast tölvu og noti hana á skapandi hátt
 • að börn vinni saman við tölvuna

Tölvur og tölvunotkun er stöðugt ríkari þáttur í daglegu lífi manna. Leikskólabörn þurfa því að kynnast tölvunotkun af eigin raun. Lögð er áhersla á samstarf barnanna við tölvuna og þau eru hvött til sjálfstæðra vinnubragða. Val á forritum er í samræmi við uppeldisstefnu leikskólans. Tölvan er staðsett í leikstofunni þar sem börnin læra að líta á hana sem eitt af því leikefni sem í boði er.