Flutningur milli deilda í Rjúpnahæð

Í Rjúpnahæð hefja flest börn leikskólagöngu sína á Móa, þar sem þrjár yngri deildir leikskólans eru staðsettar. Eftir 1-2 ár fara þau svo yfir á Mýri, þar sem þrjár eldri deildir leikskólans eru til húsa. Alla jafna flytjast því börnin einu-, til tvisvar sinnum á milli deilda á meðan þau eru í leikskólanum.

Þáttaskil

Flutningar af þessu tagi geta verið mikil og stór þáttaskil í lífi bæði leikskólabarna og foreldra þeirra og fela í sér miklar breytingar sem hver og einn upplifir á sinn hátt. Til að tryggja að flutningsferlið verði farsælt er því nauðsynlegt að leggja áherslu á að börn öðlist jákvæða upplifun af flutningnum og að allir aðilar, sem koma að skipulagningu, vinni saman og séu meðvitaðir um þær afleiðingar, sem ferlið getur haft í för með sér. En rannsóknir sýna að erfiðleikar í flutningsferli sem þessu geta haft langvarandi áhrif á líðan, þroska og námsárangur barna. Skipuleggja þarf flutningsferlið því vel með þarfir allra barnanna að leiðarljósi. Samvinna milli deilda og foreldra ber þar helst að nefna, að undirbúa börnin vel og að lokum styðja þau í aðlögun.

Samvinna milli deilda

Í Rjúpnahæð er mikið lagt upp úr samvinnu milli deilda og ríkir því mikil samfella í leikskólanum sem gerir flutninginn auðveldari fyrir börnin. Á öllum deildum er áhersla lögð á að notaðar séu sömu kennsluaðferðir, að ávallt sé unnið eftir hugmyndafræði og stefnu leikskólans og að námsumhverfi deildanna sé með svipuðu móti. Þar að auki fer starfið að miklu leyti fram í flæði sem gerir það að verkum að öll börn og kennarar kynnast vel sín á milli.

Að undirbúa börnin

Þegar flutningur milli deilda er í sjónmáli er afar mikilvægt að undirbúa börnin vel. Það er gert með því að ræða flutningana bæði í leikskólanum og heima og fara í heimsóknir á nýju deildina. En rannsóknir sýna að ef börn eru vel undirbúin og í kjölfarið meðvituð um flutninginn öðlist þau sjálfstraust, upplifi síður óöryggi og eru líklegri til að aðlagast með farsælum hætti. Með heimsóknum á nýju deildina kynnast börnin nýja umhverfinu og með því að dvelja þar með kennurunum sem koma til með að taka á móti þeim kynnast börnin þeim sem og nýjum gildum og viðmiðum. Því oftar sem börnin fara í heimsóknir því kunnugri verða þau hinu nýja umhverfi og í kjölfarið betur undirbúin fyrir flutninginn.

Í Rjúpnahæð undirbúum við flutninga milli deilda vel og skipuleggjum minnst tvær heimsóknir á viku, þar sem börnin fara yfir á eldri deildina í samverustund, flæði, frjálsan leik eða á öðrum tímum dags. Við stefnum ávallt að því að hafa sem flestar heimsóknir fyrir formlegan flutning og tökum 5 - 6 vikur í það ferli. Mikilvægt er að tala opinskátt um allt ferlið við börnin svo þau séu meðvituð um hvað sé að gerast og hvert markmið heimsóknanna sé. Auk þess verða börnin að vita að í lok ferlisins munu þau koma til með að flytjast á aðra deild. Foreldrum fá skipulag aðlögunarferlisins og eru jafnframt upplýstir um gang mála jafnóðum.

Hlutverk kennara í aðlögun

Niðurstöður rannsókna sýna fram á mikilvægi þess að kennari yngri deildarinnar, sem þekkir barnið og fyrri aðstæður þess vel, fylgi börnunum á eldri deildina, veiti þeim tilfinningalegan stuðning í nýjum aðstæðum og sjái til þess að börnin takist aðeins á við viðfangsefni sem hentar þroska þeirra og getu. Hann hefur því það hlutverk að stuðla að því að börnin upplifi vellíðan, öryggi og stöðugleika, að þau öðlist jákvæða reynslu af nýjum aðstæðum og að flutningur og aðlögun fari fram á forsendum barnanna og á þeirra hraða. Hlutverk kennaranna á nýju deildinni felur í sér að kynnast börnunum, mynda við þau tengsl og kynna þeim fyrir venjum og hefðum nýju deildarinnar.

Í Rjúpnahæð fer flutningur milli deilda iðulega fram í júní og er hefð fyrir því að kennari af yngri deild fylgi börnunum yfir á eldri deildina og sé þar, þeim til stuðnings, í um einn mánuð, eða fram að sumarfríi.

Athöfnin að flytja

Til að gera flutninginn formlegan í augum barnanna fara þau, tvö í einu, með kennara af nýju deildinni, velja sér ný hólf á nýjum stað og flytja eigur sínar yfir á nýju deildina; útifötin, skúffuna sína, aukafatapokann sinn og annað sem þau þurfa á að halda á nýjum stað. Daginn eftir mæta þau á nýju deildina og gefst þeim kostur á að sýna foreldrum sínum deildina. Þó svo að flutningurinn sé afstaðinn er mikilvægt að hafa í huga að flutningsferlinu er ekki lokið fyrr en börnunum líður vel, upplifi að þau tilheyri hópi, finni til öryggis og með jákvætt viðhorf gagnvart nýju umhverfi. Nauðsynlegt er því að hafa sérstakt auga með þeim og fylgjast með líðan þeirra á nýjum stað.

Sjálfræði í flutningsferlinu í Rjúpnahæð

Í flutningsferlinu er lögð rík áhersla á sjálfræði barnanna líkt og í öllu starfi skólans. Sjálfræði barnanna birtist helst í aðstæðum þar sem börnin virðast upplifa einhvers konar óöryggi eða vanlíðan og kjósi þá að draga sig úr aðstæðunum og reyna aftur seinna. Þar að auki fá þau tækifæri til að koma hugmyndum sínum og sjónarmiðum á framfæri og orðum á þær tilfinningar sem þau upplifa í ferlinu sem gerir kennurum kleift að endurmeta stöðuna og skipuleggja næstu skref út frá þeirra líðan og skoðunum.