Laupur – listasmiðja

Í Laup koma börn frá öllum deildum leikskólans og fer lengd hverrar stundar eftir aldri barnanna. Unnið er með fjölbreyttan efnivið og áhöld svo sem ýmiskonar málningu og liti, heimatilbúinn leir, ull, náttúrulegan og verðlausan efnivið og margt fleira. Við leggjum okkur fram við að gera upplifun barnanna af myndsköpun ánægjulega, upplifun þeirra og sköpunargleði skiptir meira máli en útkoman sjálf.

Mánudagar – Arnarhreiður

Þriðjudagar - Spóahreiður

Miðvikudagar – Krummahreiður

Fimmtudagar – Þrastahreiður og Lóuhreiður

Föstudagar – Álftahreiður

Í Laup er ákveðið flæði í hverri stund, rýminu er skipt upp í mismunandi stöðvar þannig að umhverfið sé áhugavert og hvetji til skapandi vinnu. Stöðvunum er breytt reglulega til að viðhalda áhuga barnanna. Unnið er út frá hugmyndum þeirra en jafnframt lögð fyrir verkefni sem tengjast árstíðunum og starfi leikskólans hverju sinni. „Ég sjálfur“ er til dæmis þema sem er gegnumgangandi í starfi leikskólans en út frá því má vinna mörg fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Að miklu leyti er unnið með  verðlausan efnivið og efnivið úr náttúrunni á fjölbreyttan og skapandi hátt bæði inni og úti í nánasta umhverfi.

Hver stund hefst á því að börnin fara sjálf í svuntur og hjálpast að við að festa þær á hvort annað með okkar aðstoð. Því næst fá börnin sér sæti í glugganum og við ræðum saman um verkefnið sem framundan er og hvaða stöðvar verða í boði. Við leitumst við að spyrja þau opinna spurninga þannig að hugmyndir þeirra um viðfangsefnið komi fram. Þegar börnin hafa lokið vinnu sinni leggjum við áherslu á að þau gangi frá eftir sig, þ.e. hengi upp svuntur, þvoi sér um hendur og hjálpi til við annan frágang ef þess þarf. Í lok tímans er staldrað við, verkin skoðuð og börnin fá tækifæri til að tjá sig um þau. Við skráum einnig hjá okkur mætingu barnanna og merkjum við virkni þeirra og samvinnu. Ef börnin hafa frá einhverju skemmtilegu að segja um verk sín skráum við það við verk barnsins.  

Starfsmenn:

Valdís Karen Smáradóttir - Umsjónarmaður í Laup