Samvinna við grunnskóla er mikilvægur þáttur í leikskólastarfinu. Samvinna á milli Salaskóla og Rjúpnahæðar hefur það að markmiði að auðvelda barni að flytjast milli skólastiga og að samfella og stígandi skapist í námi og starfi barnsins.
Upplýsingar um einstök börn geta fylgt þeim í grunnskóla, en upplýsingar um börn, sem hafa fengið sérkennslu í leikskóla, fara til grunnskóla í gegnum skólaskrifstofur. Engar upplýsingar eru gefnar um börn nema með samþykki og vitund foreldra.
Samstarfið byggist aðallega á því að stjórnendur hvors skóla kynna sér stefnur og áherslur í starfi hvors annars. Gagnkvæmar heimsóknir nemenda er góð leið til að tengja skólastigin saman. Leikskólabörnunum er boðið í heimsókn í ákveðinn bekk. Kennari tekur á móti þeim, kynnir þeim bygginguna, skólalóðina og skólastofuna. Börnin taka þátt og kynnast almennu skólastarfi. Grunnskólabörnunum er boðið í leikskólann og taka þátt í leikskólastarfinu. Flestir nemendurnir hafa verið í Rjúpnahæð og þekkja því starf leikskólans af eigin reynslu.