Þátttökuaðlögun

Þátttökuaðlögun byggir á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur sé barnið að læra að vera í nýjum aðstæðum. Það styður við stefnu Rjúpnahæðar þar sem sjálfræði er haft að leiðarljósi. Barnið er að kynnast nýjum aðstæðum og námsumhverfi á sínum forsendum og eru þarfir hvers barns ávallt hafðar til hliðsjónar í aðlögunarferlinu.

Aðlögunin byggir einnig á fullri þátttöku foreldranna í leikskólastarfinu þá daga sem aðlögunin á sér stað. Með því fá foreldrar kjörið tækifæri til að kynnast starfinu og kennurum leikskólans, dagsskipulagi og leiknum sem stuðlar að öryggi og trausti foreldra í garð leikskólans. Öryggið sem því fylgir smitast síðan yfir til barnanna sem hefur síðan áhrif á vellíðan þeirra. Með þessu ferli öðlast bæði foreldrar og börn það öryggi sem þarf til að dafna í leik og starfi. Foreldrar kynnast auk þess öðrum foreldrum í sömu sporum og myndast gjarnan kunningja- og vinasambönd þeirra á milli.

Í þátttökuaðlögun eru foreldrar, eins og fyrr segir, þátttakendur í leikskólastarfinu og eru með barni/börnum sínum í þrjá daga. Foreldrarnir eru inni á deild með börnunum allann tímann, eru til staðar, gefa því að borða, skipta á þeim, leika við þau o.þ.h. að hvíldinni undanskilinni. Kennarar taka að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggja daginn, deila út verkefnum og síðast en ekki síst læra af foreldrum og kynnast börnunum. Hvert barn (og foreldri þess) fær tengilið, sem er einn af kennurum deildarinnar. Hlutverk tengiliðanna er að vera til staðar fyrir barnið og foreldri þess í allri aðlöguninni og dagana á eftir, gefa mikilvægar upplýsingar, kynna stefnu leikskólans og dagsskipulagið, fara yfir námsumhverfið og þann efnivið sem notast er við í daglegu starfi.

Reynsla okkar í þátttökuaðlögun hefur sýnt að helgarfrí og aðrir frídagar geta átt það til að brjóta upp aðlögunarferlið og hefur okkur þótt best að hefja aðlögun á fimmtudegi. Þá er þriðji dagur aðlögunarinnar á mánudegi. Það sem eftir er vikunnar gefst kjörið tækifæri til að kynnast og mynda tengsl milli barnanna og kennaranna.

Á fyrsta degi er mæting 9:30 - 12:00, þá er farið heim eftir hádegismatinn.

Á öðrum degi er mæting 9:00 - 14:00, þá er farið heim eftir hvíldina.

Á þriðja degi er mæting 9:00 - 15:00, þá er farið heim eftir kaffitímann.

Á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldra sína og eru svo allan daginn, eftir dvalartíma. Einstaka börn hafa foreldra sína með sér í fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá.