Leikskólaperlan

Leikskólaperlan er líkan af margþættu námi barnsins í leikskólanum.

Í leikskólaperlunni er barnið í brennidepli því allt leikskólastarfið snýst um barnið, sá flötur er gulur þ.e. litur sólarinnar. Þeir þættir sem næst barninu eru og unnið er með í daglegu lífi þess í leikskólanum eru: Að klæða sig í og úr, borðhald, svefn og hvíld, hreinlæti og frágangur og snyrtimennska. Auk þess er unnið með ákveðin námssvið sem eru: Málrækt, hreyfing, tónlist, myndsköpun, náttúra og umhverfi, menning og samfélag, þau eru höfð rauð á lit þ.e. glóðin sem í starfinu býr.

Leikurinn umlykur barnið í öllu starfi þess og námi. Grunnlitur perlunnar er ljósblár, þ.e. litur

vatnsins. Í því rými flýtur allt það sem tengir hina fjölbreyttu þætti leikskólastarfsins saman.

Leikurinn gárar vatnið og kemur öllu á hreyfingu.

 

Leikurinn

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn “leikur leikjanna”. Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna. Í leik er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu. Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni. Sköpunarþörf, virkni og hugmyndaflug barna birtist í leikjum þeirra. Í leikjum fá börnin hreyfiþörf sinni fullnægt og þau þjálfa hreyfingar sínar og líkamsstjórn. Í þykjustu- og hlutverkaleikjum og öðrum

samleikjum lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars á jafnréttisgrundvelli. Í leik öðlast börnin samkennd og vináttu. Í skipulögðum leikjum og regluleikjum læra þau einfaldar samskiptareglur og að virða rétt annarra, í slíkum leikjum vaknar og þróast lýðræðisvitund þeirra. Lögð er áhersla á vináttu, samleik og jákvæð samskipti stúlkna og drengja.

 

Hlutverkaleikur

Börn líkja eftir fyrirmyndum sínum, setja sig í spor þeirra og samsama sig þeim. Þykjustu og ímyndunarleikir endurspegla reynsluheim barnanna og um leið hluta af þeirri menningu og samfélagi sem þau búa við. Með hugmyndaflugi sínu breyta börnin persónum og atburðum eftir skilningi sínum og þörfum. Þau tjá hlutverk sín með persónulegum blæ og gefa oft tilfinningunum lausan tauminn. Þau tjá gleði, reiði, afbrýðisemi, hræðslu og blíðu. Slík útrás er börnum holl og eðlileg. Leikskólakennari þarf að vera meðvitaður um leik barnanna og ávalt tilbúinn að örva og taka þátt í honum á forsendum þeirra. Börnin öðlast öryggi og leikurinn tekur á sig nýjar hliðar ef leikskólakennari er með.

Í Rjúpnahæð er aðbúnaður og aðstæður sem henta vel til hlutverkaleikja.

 

Einingakubbar (UNIT BLOCKS)

Starf barna með einingakubba byggist á hugmyndafræðinni um opinn efnivið, þ.e. viðfangsefnið hefur ekki í sér neinar fyrirfram gefnar lausnir heldur finnur barnið þær sjálft. Hönnuður kubbanna heitir Caroline Pratt. Lykilorð hennar var “sjálfsnám”. Börnin skapa frjálst, ein eða með öðrum, en starfsmaður tekur ekki þátt í leiknum. Kubbaleikurinn er leikur þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín. Ef þurfa þykir geta starfsmenn og barn rætt lausnir með opnum spurningum og þannig er barnið leitt áfram til þess að finna sjálft lausnirnar.

Starf með kubbum kemur inn á flesta námsþætti aðalnámskrá, t.d. stærðfræði, samfélagsfræði, félags- og tilfinningarþroska. Listir og fagurskyn, málþroska, líkamsþroska og vísindi.

Í lok leiksins ganga börnin frá kubbum í hillur sem eru merktar með lögun kubbanna.

 

Notkun einingakubba:

  • Byggir upp sjálfstraust
  • Eykur félagsfærni
  • Auðveldar þróun orðaforða
  • Örvar samhæfingu augna-handa-líkama
  • Gæðir stærðfræði, vísindi og félagsvísindi nýrri merkingu.

 

Náms og þroskaþættir einingarkubba eru

  • Líkamsþroski
  • Félags og tilfinningaþroski
  • Málþroski
  • List
  • Samfélagsfræði
  • Stærðfræði og vísindi.

 

Í félags- og tilfinningarþroska byggir barnið upp

  • Frumkvæði
  • Virðingu fyrir vinnu annarra
  • Samvinnu
  • Sjálfstraust
  • Sjálfræði
  • Börnin læra að ganga frá

 

Málþroski er

  • Hugtakaskilningur
  • Skiptast á hugmyndum
  • Skipulag bygginga
  • Starfssemi bygginga
  • Sögur um byggingu
  • Nefna byggingar
  • Lestur og frágangur