Sjálfræði

Útfrá sjálfstæði yngri barna (1-3ja ára)

Það er ekki hægt að gera viðhlítandi grein fyrir mannlífinu án þess að nota hugtök á borð við athöfn og ákvörðun, vilja og val. Öll þiggja þessi hugtök merkingu sína af því að manneskjan er vera sem getur yfirvegað metið aðstæður sínar og athafnað sig í samræmi við hugmyndir sínar um þær. Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að manneskjan sé sjálfsvera, það er gerandi með sjálfsvitund og sjálfsmynd. Hún er vera með langanir og vilja, gildismat og tilfinningar sem hafa áhrif á það hvaða stefnu líf hennar tekur. (Ástríður Stefánsdóttir og Vilhjálmur Árnason, 2004, bls. 13).

Í þessari tilvitnun er verið að lýsa þörf okkar allra til að ráða okkur sjálf, fá frelsi til að taka stórar og smáar ákvarðanir út frá okkur sjálfum og vera sjálfstæð. Sem fullorðnir einstaklingar í vestrænu samfélagi tökum við sjálfræði okkar oft sem gefnum hlut, en hvað með börn sem hafa ekki aldur og þroska til að taka jafn mikla ábyrgð á sjálfum sér? Hvernig getum við tryggt sjálfræði barna á yngstu deildum leikskóla og stutt við sjálfstæði þeirra en á sama tíma gætt öryggis þeirra og mætt grunnþörfum? Í rannsókn frá 2004 kom einmitt í ljós að í kringum 18 mánaða fóru börn að streitast á móti umönnun fullorðinna (t.d. þegar fullorðnir voru að passa upp á öryggi barnanna eða þvo þeim) en rannsakendur ályktuðu að það væri vegna aukins þroska og getu barnanna að sjálfræðisþörf þeirra jókst (Kochanska og Aksan, 2004).

Sjálfræði – hvað er það?

Eins og orðið bera í sér merkir sjálfræði að ráða sér sjálf/ur, þ.e. að fylgja innri löngun/sannfæringu frekar en að láta stjórnast/ vera stjórnað af ytri öflum (s.s. foreldrum/kennurum/jafningjum). Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að „sjálfræði er ekki það sama og algert frelsi, heldur tekur sá sem býr yfir sjálfræði tillit til þeirra sjónarmiða sem máli skipta og fyrir liggja“ (Sesselja Hauksdóttir, 2001, bls. 2).

Hvers vegna er mikilvægt að styðja við sjálfræði barna?

Til þess að geta athafnað sig í samræmi við eigin sannfæringu og vilja verða börn að fá svigrúmið til að vera fær um að taka þær ákvarðanir. Með því að efla hæfni barna til sjálfræðis læra þau að skoða eigin hug, taka ábyrgð á eigin ákvörðunum og meiri sjálfstjórn (með sjálfstjórn er átt við hæfni til að hafa áhrif á eigin hugsanir, tilfinningar og/eða hegðun útfrá eigin áætlunum eða markmiðum).        „Lýðræði byggist á því að hver þjóðfélagsþegn taki virkan þátt í að móta og stýra samfélaginu. Til þess þarf hann að vera gagnrýninn í hugsun, geta séð málin frá mörgum sjónarhornum og geta staðið á sínu, staðist áróður og almenningsálit. Líkum má leiða að því að sjálfræði sé forsenda þess að vera ábyrgur þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi“ (Sesselja Hauksdóttir, 2001; bls. 16).

Með því að læra frá unga aldri að litlar sem stórar ákvarðanir hafa afleiðingar (t.d. ef barn hefur val um að fara út annað hvort fyrir eða eftir hádegi og barn velur að fara út fyrir hádegi þá er það líka búið að velja að vera inni eftir hádegi) þá alast börn upp hæfari til að vega og meta veigameiri valmöguleika seinna meir (t.d. hvað skuli læra/gera eftir grunnskóla?).

Aukið sjálfræði barna niður í eins árs gömul hefur verið tengt við aukna þrautseigju við úrlausn verkefna, aukna færni við úrlausn verkefna, og aukna trú á eigin getu. Mikið hefur verið rannsakað og ritað um sjálfræði og sýnt hefur verið fram á mikilvægi þess að hinn fullorðni gefi barninu smám saman aukið tækifæri á að stýra eigin atferli og bera ábyrgð á eigin hegðun (Sesselja Hauksdóttir, 2001). Kamii og DeVries (1977) segja eitt af markmiðum menntunar ætti að vera að „hvetja barnið til að vera í auknum mæli sjálfstætt í samskiptum við fullorðna“ (bls. 380). Það gerist eitthvað töfrandi og valdeflandi við „samvald“ (e. power with) þegar börn og kennarar undrast og skapa saman (Sesselja Hauksdóttir, 2001).

Sjálfræði barna er samt ekki bara falleg hugsjón heldur hafa rannsóknir sýnt að aukið sjálfræði styrkir innri áhugahvöt barna til náms og eykur hvatastjórnun sem hefur jafnvel betra forspár gildi um hærri einkunnir á samræmdum prófum seinna meir heldur en mæling á greindarvísitölu! (Sesselja Hauksdóttir, 2001). Ennfremur hefur líka verið rökstutt að sjálfráðir einstaklingar með sterka innri áhugahvöt séu líklegri til að ganga vel í því sem þeir taka sér fyrir hendur og upplifi meiri lífsánægju en einstaklingar sem eru vanir mikilli stýringu (ósjálfræði) frá unga aldri (Sesselja Hauksdóttir, 2001).

Hvernig er hægt að styðja við sjálfræði ungra barna?

Stuðningur við sjálfræði felst í að byggja hlý og sterk gagnkvæm tengsl milli uppalanda/kennara og barns. Samskiptin eru gagnkvæm og byggja á virðingu, væntumþykju, að setja sig í spor hvors annars og samvinnu (Kamii og DeVries, 1977).

Börn frá 1-3ja ára þroskast og stækka á ógnarhraða og geta þeirra til sjálfsbjargar getur breyst frá viku til viku. Það er því mikilvægt að hvetja þau til að reyna við daglegar athafnir eins og að klæða sig og borða sjálf (virkja áhugahvöt og sjálfstæði). Þá er mikilvægt að hlusta á gagnrýni barna og reyna að taka ekki fram fyrir hendurnar á þeim (nema þess þurfi nauðsynlega öryggisins vegna) og reyna heldur að semja við þau eða vinna á sitt band. T.d. ef barn vill ekki nýja bleyju að minna á eitthvað skemmtilegt sem er að gerast þegar allir séu komnir með hreina bleyju (þ.e. virkja áhugahvöt með því að minna á markið barnsins sem er þá að gera skemmtilega hlutinn) eða minna á hvað það sé gott að fá hreina og þura bleyju (hjálpa barninu að skilja tilganginn með því að fá nýja bleyju). Í matartímanum er hægt að hvetja til sjálfstæðrar hugsunar með því að fá börn til að reyna sjálf að skenkja sér og velja þannig hvað þau fá sér og hversu mikið ásamt því að eflast í sjálfstæði og sjálfsbjörg. Börn geta mjög ung svo miklu meira en við, fullorðna fólkið, ætlum þeim.

Við styðjum við sjálfræði ungra barna með því að:

  • veita barni val
  • hvetja og hrósa
  • vera hvetjandi frekar en stýrandi
  • hvetja til frumkvæðis
  • hvetja barn til að gera fyrir sig sjálft
  • hjálpa barni að skilja tilgang athafnar/verkefnis
  • hvetja til sjálfstæðrar hugsunar
  • hlusta á og taka tillit til mótbára/gagnrýni barns
  • hvetja barn til að tjá/sýna tilfinningar
  • taka tillit til tilfinninga barns
  • virkja áhugahvöt barns til mismunandi athafna/verkefna

    Með því að bregðast við þörfum barnanna, eiga með þeim hlý, gagnvirk samskipti og sýna þeim samhygð alveg frá upphafi leikskólagöngu er dregið úr árekstrum og valdabaráttu milli fullorðinna og barna. Í stað þess að orkan fari í að stýra barnahópnum hefur sá fullorðni frelsi til að vera með börnunum og styðja við það sem börnin taka sér fyrir hendur (Sesselja Hauksdóttir, 2001). Börn finna oft ekki mikið til sjálfs sín í skólakerfinu og finnst þau ekki hafa neitt með eigið nám eða menntun að gera. Með því að þau hafi áhrif á hvaða val er í boði hverju sinni strax frá upphafi finna þau að þau hafi rödd og á hana sé hlustað. Að þeirra skoðun skipti máli og að þau séu hæfir einstaklingar sem er treyst til að ráða sér sjálf að eins miklu marki og hægt er hverju sinni.

Heimildir

Ástríður Stefánsdóttir og Vilhjálmur Árnason. (2004). Sjálfræði og aldraðir: Í ljósi íslenskra aðstæðna. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ingibjörg Vala Kaldalóns. (2015). Stuðningur við sjálfræði nemenda í íslenskum grunnskólum (óútgefin doktorsritgerð). Háskóli Íslands: Reykjavík.

Kamii, C. og DeVries, R. (1977). Piaget for early education. Preschool in Action. Í M. C. Day og R. Parker (ritstjórar, bls. 363-420). Boston: Allyn & Bacon.

Kochanska, G. og Aksan, N. (2004). Development of mutual responsiveness between parents and their young children. Child development, 74, 1657-1676.

Sesselja Hauksdóttir. (2001). „Ég sjáll!“ Sjálfræði barna í leikskóla (óútgefin meistaraprófsritgerð). Kennaraháskóli Íslands: Reykjavík.