Nám án aðgreiningar

Leikskólinn er fyrir öll börn á leikskólaaldri. Þar eru börn með mismunandi atgervi og frá ólíkum menningarheimum. Leitast er við að öll börn fái tækifæri til að vinna á sínum eigin forsendum. Mikilvægt er að félagsskapur og samskipti barnanna bindi þau vináttuböndum og styrki samkennd þeirra. Í leikskólanum er það talinn ávinningur fyrir alla að eiga þar fjölbreytt samfélag.

,,Nám án aðgreiningar” er sú hugmyndafræði sem höfð er að leiðarljósi þegar sérkennslan er skipulögð og framkvæmd í leikskólanum Rjúpnahæð. Markmið sérkennslu er að búa svo um að öll leikskólabörn geti þroskast sem best á eigin forsendum. Einnig að styðja barnið þannig að það geti notið leikskóladvalar sinnar.

Börn með þroskaskerðingar og frávik í þroska fá sérkennslu samkvæmt reglum sem Kópavogsbær setur þar um. Í leikskólann eru ráðnir kennarar með sérþekkingu, t.d. leikskólasérkennarar, þroskaþjálfar og/eða leikskólakennarar og eru þeir ásamt deildarstjóra ábyrgir fyrir því að gerðar séu áætlanir vegna barnanna og þeim framfylgt. Enn fremur er mikilvægt að leikskólinn styðji vel við börn frá öðrum menningarheimum til þess að þau aðlagist íslensku samfélagi án þess að glata tengslum við eigin menningu, tungu og trú. Ef grunur leikur á að barn þarfnist sérkennslu er fylgst sérstaklega með því og í framhaldi af því eru gerðar ráðstafanir. Sérkennslustjóri gerir athugun á barni innan ramma leikskólastarfsins í samráði við deildarstjóra og foreldra. Ef barn þarfnast nánari athugunar er það í umsjón sérkennslustjóra og deildarstjóra að óska þess að fá aðstoð frá utanaðkomandi sérfræðingum í samráði við foreldra.

Leiðir að settum markmiðum:

  • Námsleiðir og leikskólaaðstæður skulu vera sniðnar að þörfum allra leikskólabarna.
  • Áherslur í einstaklingsnámskrá skal framfylgt bæði í leik og starfi.

Meginreglan er að sérkennslan fari fram inni á deild viðkomandi barns, í hópnum með öðrum börnum. Þar eru þættir eins og félagsfærni og boðskiptafærni mikilvægir. Börnunum er leiðbeint og kennt í litlum leik eða vinnuhópum. Áhersla er á samvinnu, félagsfærnivinnu og að börnin læri og leiki með sínum félögum og vinum. Þó vinnan fari að mestu leiti fram á þeirri deild sem barnið dvelur á er unnið með barn einstaklingslega þegar þörf þykir. Þá er unnið markvisst með barnið útfrá einstaklingsnámskrá þar sem boðskiptafærni og fín –og grófhreyfingar eru þjálfaðar. Þegar þörf er á er einstaklingsnámskrá unnin fyrir barnið í samráði við foreldra. Einstaklingsnámskrár og áhersluþættir eru unnir af sérkennslustjóra/ þroskaþjálfa/ leikskólakennara í samvinnu við deildarstjóra.

Í einstaklingsnámskrám er gengið út frá þeim bakgrunnsupplýsingum sem liggja fyrir úr athugunum sérfræðinga. Þær eru síðan endurskoðaðar eftir þörfum, eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Deildarstjóri og sérkennslustjóri með umsjón sjá um að koma upplýsingum frá leikskólanum til foreldra og samstarfsfólks.