Leikskólanám er samþætt nám þar sem barnið er að læra allan tímann við mismunandi aðstæður. Venjubundnar athafnir daglega lífsins í leikskólanum mótast af andlegum og líkamlegum þörfum barnanna og heilsu. Leikskólakennarar nota öll tækifæri sem gefast til að örva nám barnanna, t.d. í matartímum, fataherbergi og á snyrtingu. Börnin hjálpa sér sjálf eftir því sem þroski þeirra og geta leyfir, það eykur sjálfstæði þeirra og styrk. Líkamleg umönnun og heilsuvernd stuðlar að almennri vellíðan barnsins. Návist leikskólakennarans við barnið í leik og starfi gefur dvöl þess í leikskólanum dýpra gildi. Leikskólastarfinu er skipt í ýmiskonar leik, náms- og samverustundir

 

Að koma og fara

Lögð er áhersla á að taka á vel á móti hverju barni, því heilsað með nafni svo það finni sig velkomið í leikskólann. Barnið þarf að upplifa öryggi og það viðmót sem það mætir þarf að vera viðurkennandi því það getur haft úrslitaþýðingu varðandi líðan barnsins, góð samskipti og tengsl. Foreldrum ber að fylgja börnum sínum inn á deild/eða á þá deild sem tekur á móti.
Mikilvægt er að börnin mæti áður en hópstarf byrjar á morgnanna. Það getur reynst erfitt fyrir barnið og truflandi fyrir hin ef mætt er í miðja vinnustund.

Foreldrum ber að virða vistunartíma barn síns og láta starfsmann viðkomandi deildar vita þegar það er sótt. Barnið er kvatt í lok dags og því þakkað fyrir daginn.

Ef ekki er búið að sækja barnið tíu mínútum eftir að vistunartíma lýkur er haft samband við foreldra. Ef viðkomandi barn er ítrekað sótt of seint ræðir deildarstjóri við foreldra og svo leikskólastjóri í framhaldi af því, ef ekki verður breyting á.

Klukkan 7:30 – 8:00 er tekið á móti börnum á Þrastarhreiðri. Í lok dagsins, kl. 16:30 – 17:30 eru yngri börnin sótt á Spóahreiðri og eldri börnin í íþróttasal/matsalnum. Einn starfsmaður á yngri/eldri álmu leikskólans ber ábyrgð á upplýsingabók. Í hana eru skráðar upplýsingar til foreldra, ef þörf er á, frá deildum.

 

Að klæða sig í og úr

Í fataherberginu fer fram mikið uppeldis- og fræðslustarf. Börnin læra að klæða sig að mestu sjálf í og úr, hjálpa hvort öðru og fá þá aðstoð sem þau þarfnast. Þetta eykur sjálfstæði þeirra og styrkir sjálfsmynd. Börnunum er gefinn góður tími og jákvæð samskipti eru í fyrirrúmi, því ekki skiptir máli hvort barn kemst nokkrum mínútum fyrr eða seinna út.

 Vel er fylgst með að klæðnaður barnanna sé í samræmi við veður. Veðurfræðingur dagsins ásamt leikskólakennara tilkynna í hvað skal fara og með tímanum lærir barnið að meta sjálft hvað sé best. Lögð er áhersla á að börnin gangi vel um fataklefann og þau hengi fötin sín upp í hólfið sitt.

Útifatnaður er settur í hólf barnsins og aukafatnaður er settur í taupoka sem barnið fær þegar það byrjar í leikskólanum. Taupokinn er síðan geymdur í skáp inni á salerni/deild. Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með hvort aukaföt vanti og að barnið sé með útifatnað í samræmi við veðurfar.

Á föstudögum ber foreldrum að tæma hólfið. Á mánudögum skal fatnaður settur á aðgengilegan hátt í hólfið fyrir barnið og taskan tekin með heim.

Nauðsynlegt er að allur fatnaður sé vel merktur. Ómerktur fatnaður er hengdur reglulega upp á snúru og æskilegt er að foreldrar fari í gengum hann. Farið er með óskilamuni í Rauða Krossinn.

 

Matartími - Flæðismatur

Í Rjúpnahæð er lögð áhersla á að börnin fái hollan og fjölbreyttan mat í leikskólanum. Til viðmiðunar er notaður sérstakur matseðill sem gefinn er út af Lýðheilsustöð. Matartíminn er ekki aðeins til að uppfylla næringarþörf barnanna heldur á hann að vera notalegur tími þar sem öllum líður vel.

Undirstaða að vel skipulögðu umhverfi eykur vellíðan og öryggi hjá börnum og starfsfólki. Matmálstíminn er einn af mikilvægustu stundum barnsins yfir daginn og leggjum við mikið upp úr sjálfræði barnanna í honum. Við teljum að það séu meiri líkur á að barn borði vel sem velur matinn sjálft og finnur að því sé treyst til verksins. Að barn öðlist meiri trú á eigin getu til að stjórna, læra að þekkja og hlusta eftir eigin magamáli. Að þá læra börnin einnig að njóta fegurðar, bera virðingu fyrir mat, taka tillit til annarra, hafa þolinmæði við að bíða eftir að röðin komi að þeim og eiga í samræðum við skólafélaga undir hollri og ljúffengri máltíð.

Markmið okkar í matmálstímum eru eftirfarandi:

  • Að virða frelsi barna
  • Að börnin beri ábyrgð
  • Virða menningarlegan þátt barnanna, veita þeim frelsi og frið til að ræða saman um hvað sem er; mat, vináttu, leiki, hetjur, menningu o.fl.
  • Að börn fái val um hvar þau vilja sitja
  • Að börnum líði vel í matmálstímum
  • Að börn læri að þekkja eigið magamál
  • Að stuðla að vellíðan í fallegu og notalegu umhverfi
  • Að sérhvert barn geti sett saman eigin máltíð á diskinn sinn, hvað það vill eða þorir að prófa hverju sinni
  • Að börnin séu  hvött til að smakka mat en hvorki látin eða skipað að gera það

Börnunum er frjálst að sitja hvar sem er og með hverjum sem er.  Við matarborðið er stuðlað að samvinnu milli barnanna, þau eru hvött til að biðja um að láta rétta sér, biðja um aðstoð, látin skammta sér sjálf og svo ganga þau sjálf frá (með aðstoð eftir aldri).

Í síðdegishressingu er flæðiskaffi, þá er lögð sérstök áhersla á að börnin bjargi sér sjálf og starfsmaður er til staðar til að aðstoða og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig. Börnin merkja við sig þegar þau koma inn í Bjarg og þannig bera þau ábyrgð á sjálfum sér í síðdegishressingu. Börnin ná sér í áhöld sjálf, setjast þar sem þau vilja og hjálpa sér að mestu leiti sjálf við til dæmis að smyrja og hella í glösin. Undantekning frá flæðiskaffinu eru yngstu börn leikskólans en þau börn drekka inni á sinni deild.

Öll börn taka þátt í þeim máltíðum sem eru á dvalartíma þeirra.

 

Hvíldarstund

Hvíld og nægur reglubundinn svefn er öllum börnum nauðsynlegur til að geta viðhaldið andlegri og líkamlegri heilsu og vellíðan og tekist á við lífið og leikinn.

Eftir hádegisverð er hvíld þar sem yngstu börnin sofa en þau eldri fara í sögustund. Lögð er áhersla á að skapa rólegt og þægilegt andrúmsloft í hvíldinni. Á yngri deildum á hvert barn sinn stað í hvíldinni og hvílist með kodda og teppi.

 

Hreinlæti

Hreinlæti er mikilvægur þáttur í daglegu lífi barnanna. Lögð er áhersla á að börnin gangi vel um og tileinki sér almennar salernisvenjur, þ.e. sturta niður, þvo sér um hendur og þurrka sér. Yngstu börnin í leikskólanum eru að læra að halda sér hreinum og þurrum. Mikilvægt er að það ferli gangi vel og jákvætt fyrir sig.

 Við bleiuskipti á sér stað mikið uppeldislegt gildi, þar gefst gjarnan tækifæri til mikillar nándar og skemmtilegra samræðna milli barns og kennara. Reynt er að gæta hreinlætis í hvívetna, ekki síst með tilliti til smithættu. Noti barn bleiu koma foreldrar með þær.

 Börnin eru hvött til þess að fara á salernið fyrir útiveru. Einnig er mikilvægt að þau þvoi sér um hendur þegar komið er inn og áður en matast er.

 Markmiðið er að börnin verði sjálfbjarga á salerni og læri um mikilvægi handþvottar .Til þess að hreinlæti sé sem mest nota börnin þvottastykki til þess að þurrka sér um hendurnar, en þau eru sett í þvott daglega.

 
Frágangur og snyrtimennska

Einn liður í uppeldi og menntun barnanna í Rjúpnahæð er að þau læri að bera ábyrgð á því að ganga frá fatnaði sínum og leikefni. Lögð er áhersla á að börn og starfsfólk ákveði reglur varðandi umgengni og tiltekt saman.

Samhliða þeirri umræðu er nauðsynlegt að fræða barnið um rökréttar og eðlilegar afleiðingar um umhverfi sitt. Ef barn skortir skilning, finnst því að þurfa að taka til vera skylda eða þvingun, jafnvel þó svo að það hafi tekið sjálft þátt í að móta reglurnar. Börnin eru þátttakendur í undirbúningi að ýmsum verkefnum, t.d. að sækja sér efnivið.

Mikilvægt er því að leikföng og efniviður sé aðgengilegur börnunum. Frágangur og snyrtimennska á að vera liður í daglegu starfi leikskólans.