Leikskólanám

Leikskólanám á að efla alhliða þroska barna, þ.e.a.s. efla mikilvægustu þroskaþætti sem samtvinnast hjá barninu. Þessir meginþættir og samspil þeirra varða líkamsvöxt barna og hreyfifærni, tilfinningalíf, vitsmuni, félagsvitund og félagshæfni, fegurðarskyn og sköpunarhæfni, siðgæði og lífsviðhorf.

Í leikskólastarfi er barnið í brennidepli og starfshættir eiga að taka mið af þroska og þörfum hvers barns. Leikskólanám er samþætt nám þar sem námssvið og námsþættir fléttast inn í daglegt líf og leik barnsins.

Nám í leik

Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi allra leikskóla. Leikskólakennarar þekkja leik barna, þeir virða leikinn, hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna. Fullorðnir og börn eru hluti af því umhverfi. Leikskólafræðingar leggja áherslu á mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar- hinn frjálsi sjálfsprottni leikur er æðstur allra leikja. Margs konar upplifanir barnsins, svo og dagleg störf fullorðna fólksins, glæða leik barnanna lífi og innihaldi.

Nám í daglegu lífi í leikskóla

Leikskólanám er samþætt nám þar sem barnið er að læra allan tímann við mismunandi aðstæður. Leikskólakennarar nota öll tækifæri sem gefast til að örva nám barnanna, t.d. í matartímum, fataherbergi og á snyrtingu. Umönnun og daglegt líf eru stór hluti af leikskólastarfinu. Umönnun er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri umönnun skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust.

Nám í samskiptum

Hæfni til samskipta er grundvöllur þess að lifa, starfa og leika sér með öðrum í sátt og samlyndi. Leikskólakennarar stuðla að því að öll börn njóti sín í samskiptum og læri að taka tillit til annarra. Sjálfsmynd barna mótast hvað mest í samskiptum við annað fólk, bæði fullorðna og börn. Samvinna, samkennd, tillitssemi og ábyrgðartilfinning eru mikilvægir þættir í félagsþroska barna. Leikskólakennarar eru fyrirmyndir barnanna í orði og athöfnum.

Nám í skapandi starfi og skapandi hugsun

Að skynja, skilja og skapa er hæfni sem börn verða að þróa með sér.

Allt skipulag og búnaður í leikskólanum á að stuðla að því að vekja forvitni barnanna, frumkvæði, virkni, áhuga, gleði og efla sjálfstæði þeirra. Leikskólakennarar hvetja börnin til að spyrja spurninga og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Þeir skapa einnig aðstæður til tjáningar og sköpunar í leik, máli, myndlist, tónlist, leiklist, hreyfingu og dansi. Þannig gefst börnunum tækifæri til að skynja umhverfi sitt, vinna með fjölbreyttan efnivið og öðlast margháttaða reynslu.

Lög um leikskóla

Leikskólinn er fyrsti skóli barnsins, fyrsta skólastigið í menntakerfinu. Í leikskóla fer fram uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri. Orðið menntun er notað í víðri merkingu, þ.e. uppeldi, umönnun, nám og kennsla.

Leikskólastarf á Íslandi byggir á lögum um leikskóla og reglugerð með þeim, og Aðalnámskrá leikskóla sem menntamálaráðuneytið gefur út.

Samkvæmt meginmarkmiðum laga á leikskólinn:

- að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði

- að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara

- að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar

- að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna

- að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

(Samanber lög um leikskóla nr.78/1994).

Í lögum um leikskóla kemur einnig fram:

- að leikskólinn er val foreldra fyrir börn sín

- að sveitarfélög skulu reka leikskóla óski foreldrar þess og bjóða börnum a.m.k. fjögurra stunda dvöl

- að leikskóli er fyrir öll börn á leikskólaaldri, þau sem þess þurfa njóta sérkennslu og aðstoðar til að geta notið leikskóladvalar sinnar

-að leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum

- að í leikskólum skulu starfa sérfræðingar í leikskólauppeldi, þ.e. leikskólakennarar.

(Samanber lög um leikskóla nr.78/1994).

Reglugerð um starfsemi leikskóla

Reglugerð um starfsemi leikskóla tekur til ýmissa ákvæða er varða:

- húsnæði, búnað og útileiksvæði

- starfslið og barnafjölda

- samstarf leikskóla og foreldra

- ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu – sérkennslu

- gæðaeftirlit og gæðamat.

(Samanber reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 225/1995).