Undraland/ævintýri í sandkassa

Í Undralandi fá börnin tækifæri til þess að bera ábyrgð, örva skynjun og efla hæfni sína til að lesa í og bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Börn og starfsfólk vinna saman að því að gera garðinn tilbúinn undir garðrækt með því að sópa og taka gömul laufblöð og rusl úr garðinum. Þegar hann er tilbúinn setja börnin á Móa niður kartöflur. Á meðan við erum að setja niður kartöflurnar fræðum við þau um hvað gerist þegar kartöflumamman fer niður í moldina. Fræðslan sem fram fer er skipulögð út frá getu og aldri barnanna

Mýri setur niður alls kyns grænmeti eins og t.d. gulrætur, rófur, hnúðkál, grænkál, klettasalat og fleira. Börnin hjálpa svo kennurunum að hugsa um garðinn með því að vökva og taka arfa. Með þessu erum við að fá börnin til þess að bera ábyrgð á garðinum og þau sjá svo útkomuna á uppskeruhátíðinni sem er í ágúst ár hvert. Þar fá þau að smakka á grænmetinu sem þau tóku þátt í að rækta – bæði á hlaðborði og í kjötsúpu sem elduð er í hádeginu. Inn á deildum fer auk þess fram fræðsla um grænmetið. Við ræðum hvað grænmetið þarf til þess að það vaxi og dafni.