Uppgötvunarsvæðið

Nýja svæðið í sumarskólanum okkar heitir Uppgötvunarsvæði og er staðsett á útikennslusvæði leikskólans. Þar er opin efniviður, vísindi og náttúran í allri sinni dýrð í forgrunni og möguleikarnir á skemmtilegum, forvitnilegum og fjölbreyttum leik því óteljandi! Á svæðinu eru ýmis tæki, tól og efniviður sem býður upp á allskonar tilraunir og vísindastarf.

Smíðabekkurinn er einnig á svæðinu og geta börnin því smíðað, sagað, neglt og skapað að vild.

Útikennsluskúrnum er breytt í rannsóknar- og vísindastofu þar sem hægt er að rannsaka betur það sem krakkarnir finna í umhverfinu.

Á Uppgötvunarsvæðinu ætlum við að leggja áherslu á að nýta okkur allt sem umhverfið hefur upp á að bjóða í bæði leik og rannsóknarvinnu og að kynna börnunum fyrir fjölbreytileika náttúrunnar. Auk þess er efniviður í boði til að virkja og frjóvga leik og athuganir.

Á svæðinu ýtum við undir og eflum uppgötvun, rökhugsun, stærðfræði, sköpun, frumkvæði og hvetjum við börnin, umfram allt, til að láta ímyndunaraflið leika lausum hala. Kennarar verður á staðnum þeim til stuðnings og hafa þeir það hlutverk að hvetja, aðstoða, spyrja opinna spurninga, fræða og efla áhuga, sjálfræði, forvitni og virðingu fyrir náttúrunni.